Foreldrahandbók

Foreldrahandbókin í rafbókarformi

Hér koma fram hagnýt ráð um daglegt starf leikskólans sem gott er fyrir foreldra að hafa í huga.   

Aðlögun 

Að byrja í leikskóla er mikil breyting og ný reynsla  fyrir barn og foreldra þess. Áður en leikskóladvöl hefst eru foreldrar boðaðir á kynningarfund eða foreldrasamtal án barns þar sem leikskólastarfið er kynnt, húsakynni skoðuð og skrifað er undir dvalarsamning. Aðlögun tekur fimm daga eða lengur, allt eftir því hvernig gengur. Reynt er að sjá til þess að sami starfsmaður sinni aðlögun barns.

Barn og foreldrar þurfa að fá góðan tíma til að kynnast leikskólanum, deildinni, umhverfinu, starfsfólkinu og barnahópnum. Með góðum aðlögunartíma aukast tengslin milli foreldra og starfsfólks. Hornsteinn er lagður að öryggi og vellíðan barnsins í leikskólanum og samstarfi heimilis og skóla.  

Aðlögun á milli deilda fer fram annaðhvort fyrir eða eftir sumarlokun en þá fer hópur barna frá yngri deildum á eldri deildir. Til að auðvelda börnunum þessar breytingar fylgir hluti starfsfólks þeim tímabundið yfir á nýju deildina.

Þegar barn færist á milli deilda á miðju skólaári fylgir starfsmaður barninu í aðlögun með heimsóknum á nýju deildina. Foreldrar eru boðaðir í stutt samtal áður en barnið fer á nýja deild og er velkomið að vera með barni sínu í aðlögun.

Daglegt líf í leikskólanum

Daglegt líf í Álfaheiði snýst um velferð og vellíðan barnanna sem þar dvelja. Leikskólastarfinu er skipt í ýmiss konar leik, náms- og samverustundir.  

Dagskipulag:   

  • Kl: 07:45 -  Leikskólinn opnar  
  • Kl: 08:00 - 09:00 Nám og leikur (inni - úti)
  • Kl: 08:30 - 09:00  Morgunverður
  • Kl: 09:30 - 11:30 Nám og leikur (inni - úti)
  • Kl: 11:30 - 12:00  Hádegisverður
  • Kl: 12:00 - 13:00 Hvíld (lengur hjá yngri börnunum)
  • Kl: 13:00 - 14:30 Nám og leikur (inni - úti)
  • Kl: 14:30 - 15:00  Síðdegishressing
  • Kl: 15:00 - 16:30  Nám og leikur (inni - úti)
  • Kl: 16:30 - Leikskólinn lokar

Nánari útfærslu af dagskipulagi má sjá á hverri deild.

Að koma og fara

Leikskólinn leggur áherslu á að taka vel á móti hverju barni. Foreldrum ber að afhenda barn til starfsfólks þegar komið er í leikskólann og láta starfsmann viðkomandi deildar vita þegar barnið er sótt. Mikilvægt er að foreldrar virði þann tíma sem þeir kaupa því vinnutími starfsfólks er skipulagður með tilliti þess.

Foreldar skrifa undir eyðublað um hverjir mega sækja barnið í leikskólann og er það ekki afhent öðrum en þeim sem eru á listanum nema um annað hafa verið samið. Mikilvægt er að foreldrar tilkynni starfsfólki ef barn er sótt af öðrum.

Vinsamlegast athugið að aka varlega í næsta nágrenni leikskólans. Það er mikill mengunarvaldur að hafa bíla í gangi á bílastæðunum, vinsamlegast takið tillit til þess. Mikilvægt er að loka alltaf hliðinu að lóð leikskólans öryggisins vegna.

Matur og næring

Matartímar og borðhald hafa mikið uppeldislegt gildi og lögð er áhersla á hollan og fjölbreyttan mat. Matarstefna leikskólans styðst við ráðleggingar Embættis landlæknis.

Boðið er upp á morgunverð, hádegisverð og síðdegishressingu í leikskólanum. Matseðill er kynntur foreldrum á deildum og á heimasíðunni.

Ef barn er með ofnæmi eða mataróþol er reynt að koma til móts við það í samráði við foreldra en ávallt þarf að skila inn vottorði frá viðurkenndum lækni.  

Vinsamlegast komið ekki með mat í leikskólann því þar geta dvalið börn með bráðaofnæmi.  

Svefn og hvíld

Svefn og hvíld er barni nauðsynleg ekki síst á fyrstu árum ævinnar þegar vöxtur og þroski er sem örastur. Þreytt barn á erfitt með að takast á við langan vinnudag í leikskólanum. Lögð er áhersla á að öll börn eigi kyrrláta hvíldarstund á degi hverjum þar sem þau ýmist sofa, hlusta á sögu, rólega tónlist eða fara í jógaleiki. Með því að hlúa að svefnvenjum þeirra hlúum við í leiðinni að líkamlegri og andlegri heilsu þeirra. Því vekjum við ekkert barn á yngri deildum fyrr en eftir kl. 13:30. Svefn fyrir klukkan 14 á daginn hefur ekki áhrif á nætursvefn.   

Fróðlegir vefir um svefn og svefnvenjur:

 https://www.betrisvefn.is/

 Svefn ungra barna | Heilsuvera

 https://salstofan.is/lesstofa/svefn/

Fatnaður

Að klæða sig í og úr er liður í námi barns. Mikilvægt er að fatnaður sé þægilegur þannig að það geti klætt sig sjálft allt eftir aldri og getu. Það eykur sjálfstæði barnsins og styrkir sjálfsmyndina. Í leikskólanum er unnið með ýmis efni s.s. liti, lím og málningu sem geta farið í föt barnanna, vinsamlegast takið tillit til þess.

Klæðnaður barns þarf að vera í samræmi við veðurfar og hafa ber í huga að veður getur breyst snögglega og því er nauðsynlegt að hafa aukafatnað meðferðis. Athuga þarf reglulega í körfu barnsins, fara yfir aukafatnað og athuga hvort föt barnsins hafa ratað í þurrkskápinn.

Mikilvægt er að merkja allan fatnað því í stórum barnahópi getur verið erfitt að vita hver á hvað.

Snuð, bleiur, blautþurrkur og aðrar eigur barnsins sem foreldrar koma með að heiman eru geymd í merktum körfum. Hólf þarf að tæma á föstudögum vegna þrifa.

Hér má finna helstu upplýsingar um hvaða leikskólafatnað er gott að hafa með sér í leikskólann.

Hreinlæti

Hreinlæti er liður í uppeldisstarfinu og er barni hjálpað við að tileinka sér góðar venjur, s.s. að þvo hendur fyrir máltíðir, eftir útiveru og salernisferðir, þannig þroskar barn með sér heilbrigt viðhorf til líkama síns og umhirðu. Yngstu börnin í leikskólanum eru að læra að halda sér hreinum og þurrum. Bréfbleiur eru mörg hundruð ár að brotna niður í umhverfinu, það er því er mikilvægt að venja barnið af þeim eins fljótt og kostur er.

Börnin leika sér mikið á gólfinu og óskum við því eftir að foreldrar og aðrir sem koma með börnin og sækja, gangi ekki inn á skónum.

Tannheilsa barns skiptir miklu máli og gegna foreldrar þar lykilhlutverki. Til að halda tönnunum heilbrigðum er nauðsynlegt fyrir foreldra að byrja og enda daginn á að tannbursta barnið.  

Fróðlegir vefur um tannheilbrigði barna:  

Tannvernd - ráðleggingar embættis landlæknis | Ísland.is

 https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/tannheilsa/

Fjarvistir barna, veikindi, slys og lyfjagjafir

Við viljum benda foreldrum á að leikskólastarfið er skipulagt með það í huga að öll börn geti tekið þátt í starfinu bæði úti og inni. Vinsamlegast tilkynnið ef barn er fjarverandi t.d. vegna veikinda eða fría.   

Mikilvægt er fyrir foreldrar að hafa í huga að: 

  • Ekki er hægt að taka við veiku barni í leikskólann.
  • Þegar barn kemur aftur í leikskólann eftir veikindi getur það í undantekningartilvikum fengið að vera inni í 1-2 daga henti það starfseminni.  
  • Ef barnið þarf að taka lyf er mikilvægt að haga lyfjagjöfinni þannig að lyfin séu gefin heima, nema annað sé óhjákvæmilegt.

 Ef barn veikist í leikskólanum er foreldrum gert viðvart og hlúð að barninu þar til foreldrar sækja það. Náist ekki í þá eða ef um alvarlegt slys er að ræða er farið með barnið á slysadeild eða heilsugæslustöð. Ef ekki næst í foreldra er haft samband við tengilið sem foreldrar hafa gefið upp á bráðaupplýsingablaði. Í öllum slysatilfellum þar sem vafi er á um greiningu er hringt í 112 og leitað ráða. Leikskólastarfsfólk skráir öll slys.

Barn er slysatryggt í leikskólum Kópavogs en ekki er tekin ábyrgð á persónulegum munum þess s.s. fatnaði, gleraugum.

Mikilvægt er að foreldrar láti deildarstjóra vita um alvarleg veikindi eða dauðsfall í fjölskyldu barnsins.

Afmæli og heimsóknir

Afmælisdagur er stór dagur fyrir barnið. Haldið er upp á hann í leikskólanum. Við tileinkum barninu daginn, kveikjum á kertum, flöggum og skemmtum okkur í samverustund.

Sumir hafa boðið vinum sínum af  leikskólanum í afmælisveislu heim. Þegar svo er skapast oft sá vandi hverjum á að bjóða. Vinsamlega setjið ekki afmælisboðskort í hólf  barnanna og við viljum beina því til foreldra að láta sem minnst bera á hverjum er boðið og hverjum ekki. Það veldur vonbrigðum og leiðindum hjá þeim börnum sem ekki er boðið.

Alltaf er eitthvað um það að börn eru að fara í heimsókn til hvers annars eftir leikskólann og viljum beina því foreldra að þau boð fari fram utan leikskólans.

Við viljum biðja foreldra að íhugi vel hvort ráðlagt sé að barn fari án foreldra í ókunnar aðstæður.

Hvað má barnið taka með sér í leikskólann?

Barninu er leyfilegt að koma með lítið mjúkt dýr eða bók að heiman og er það fyrst og fremst hugsað til að vera barninu til halds og trausts þegar það þarf á því að halda. Leikskólinn tekur ekki ábyrgð á þessum hlutum.

Upplýsingatöflur

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast vel með upplýsingum sem koma fram á upplýsingatöflum deilda.

Vala

Vala er leikskólaforrit og geta foreldrar á einfaldan og þægilegan máta átt samskipti við leikskólann. Þar má finna upplýsingar m.a. um matseðla, viðburði, fréttir og viðveru. Einfalt er að tilkynna forföll og senda leikskólanum skilaboð. Forritið er frítt fyrir foreldra og hægt er að nálgast það í App Store eða Google play.  

Heimasíða - tölvupóstur

Sendur er reglulega út tölvupóstur með upplýsingum um einstaka atburði sem eiga sér stað innan leikskólans sem og orðsendingar sem þarft er að koma til foreldra. Á heimsíðu leikskólans má finna allt um leikskólastarfið m.a. fréttir og matseðla.

Breytt netfang og breytingar á högum.

Foreldrum er skylt að tilkynna breytingar á högum barnsins  s.s. breytta hjúskapastöðu, heimilisfang, símanúmer eða netfang. Þetta er  gert inná Vala.is og þjónustugátt Kópavogs.  

Hér má sjá gjaldskrá leikskóla Kópavogs og ýmsar aðrar hagnýtar upplýsingar.

 https://www.kopavogur.is/is/ibuar/daggaesla-og-skolar/leikskolar