Málörvun

Tungumálið er mikilvægasta tæki mannsins til boðskipta og á leikskólaaldri er lagður grunnur að málþroska barna. Málrækt fléttast inn í allt starf leikskólans og ýmsar leiðir eru farnar til að efla málþroskann í daglegu starfi s.s. í leik, við lestur, sögugerð og myndsköpun. Ritmálið er sýnilegt á öllum deildum. 

Álfaheiði hefur sett sér Stefnu um mál og læsi

TRAS er skráningarlisti fyrir leikskólakennara til að fylgjast með máltöku tveggja til fimm ára barna. Listinn er lagður fyrir hvert barn tvisvar sinnum á ári og fylgir barninu í gegnum leikskólagönguna. Með TRAS skráningunni er hægt að fylgjast með frávikum í mál- og félagsþroska barna með fyrirbyggjandi íhlutun í huga.  

Tákn með tali er notað með yngstu börnunum en það styður við máltöku þeirra.  

Málþroski barna á fjórða ári er kannaður með EFI-2 málþroskaskimun sem metur málskilning og tjáningarfærni þeirra. HLJÓM-2 er próf í leikjaformi sem kannar hljóðkerfisvitund (hljóð- og málvitund) elstu barna leikskólans til að finna þau börn sem eru í áhættu fyrir því að eiga við lestrarerfiðleika síðar.  

Boðið er upp á leiki og námsefni sem örvar hljóðkerfis- og málvitund barnanna og má þar nefna: Sögugrunninn, Bassa, Lubbi finnur málbein, Bínu bálreiðu, Lærum og leikum með hljóðin og Teiknitúlkun þar sem börnin tjá hugsanir sínar í gegnum orð og  myndlist.  

Það er gaman að lesa saman - allan nóvember

Lestrarátakið, Það er gaman að lesa saman, stendur yfir allan nóvembermánuð ár hvert. Lestrarátakið er unnið í samvinnu við foreldra, foreldrafélag skólans og Bókasafn Kópavogs. Í lokátaksins gerir hver deild eitthvað skemmtilegt saman.

Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember, er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar og er ávallt haldinn hátíðlegur í leikskólanum með fagnaðarfundi í umsjá elstu barnanna. Öll börnin taka þátt, syngja, fara með ljóð eða leika leikrit eða gera sér eitthvað annað til skemmtunar í tilefni dagsins.
 Nóvembermánuður er því helgaður okkar ylhýra máli með lestri góðra bóka, ljóðalestri og söng. 

Rannsóknir sýna að ef lesið er fyrir börn frá unga aldri eykur það velgengni þeirra í námi síðar á ævinni og má segja og foreldrar séu fyrstu kennarar barnanna. Grunnurinn er lagður heima og fyrstu kennslu í lestri fær barnið í  notalegri lestrarstund með foreldrum sínum.

Lestur fyrir börn: 
  • eflir málþroska 
  • eykur orðaforða
  • örvar ímyndunarafl 
  • vekur forvitni 
  • eykur lestraráhuga
  • er fræðandi
  • eykur einbeitingu 

Áhugaverður fróðleikur um lestur:

Hvernig næ ég barninu mínu frá skjá yfir í bækur.pdf

Lestur fyrir börn, aldurskipt.pdf