Fréttir af skólastarfi.

Takk fyrir komuna

Foreldrafundurinn í morgun gekk mjög vel og var fjölmenni á fundinum. Byrjað var á aðalfundi foreldrafélagsins, reikningar félagsins lagðir fram og kynning var á því góða starf sem þar fer fram. Foreldraráðið sagði frá starfi ráðsins og kosið var í stjórn. Hægt er að sjá nöfn fulltrúa í stjórn foreldrafélagsins og foreldraráði hér á heimasíðunni undir hnappnum Foreldrar. Að loknum aðalfundi var kaffispjall á deildum þar sem deildarstjórar kynntu skólastarfið í vetur.

Bilun í viðburðardagatali

Því miður er ennþá bilun í viðburðardagatali heimasíðunnar okkar. Við bendum ykkur á að prenta út leikskóladagatalið og hengja upp á ísskápinn eða aðgengilegan stað svo þið missið af engu. Næsti viðburður okkar í leikskólanum verður n.k. föstudag, en þá ætla börnin á Lundi að bjóða á fagnaðarfund. Framundan er svo lestrarátakið okkar í allan nóvember. Það mun fara fram með svipuðum hætti og undanfarin ár og er í tilefni af Degi íslenskrar tungu sem er 16. nóvember ár hvert. Við munum setja inn upplýsingar hér þegar nær dregur. Ísabella styrktarbarnið okkar (hægt að lesa um hana undir hnappnum Námið) á afmæli í nóvember og af því tilefni ætlum við að hafa afmæliskaffi henni til heiðurs föstudaginn 8. nóvember. Þann dag ætlum við líka að hafa gulan dag og mæta í einhverju gulu. Við munum setja inn upplýsingar hér þegar nær dregur. Fimmtudaginn 21. nóvember verður svo lokað í leikskólanum vegna skipulagsdags.

Aðalfundur foreldrafélagsins

Miðvikudagsmorguninn 16. október klukkan 8:15 verður aðalfundur foreldrafélags leikskólans og í kjölfar fundarins verður stutt kynning á deildarstarfi. Á meðan foreldrar fræðast um leikskólastarfið, leika börnin sér á leikskólalóðinni. Þessi dagur hefst því með útiveru og morgunverðurinn verður með óhefðbundnu sniði. Bæði foreldrafélag og foreldraráð er vel mannað en vitanlega er alltaf pláss fyrir áhugasama foreldra sem vilja hafa áhrif á leikskólastarfið, Þeir foreldrar sem óska eftir setu í foreldrafélagi eða foreldraráði sendi tölvupóst á alfaheidi@kopavogur.is. Áætlað er að aðalfundur og kynningar á deildum taki að hámarki eina klukkustund.

Söfnuðu birkifræjum

Börnin á Lundi fóru í gær í gönguferð upp á Víghól að týna birkifræ fyrir Landgræðsluna. Þau söfnuðu fræjum í tvö ísbox og að vanda geymum við nokkur fræ til þess að setja niður þegar fer að vora.

Bleikur dagur

Við minnum á að föstudaginn 11. október höldum við upp á Bleika daginn og mætum öll í einhverju bleiku.

Afmælisgjöf fyrir Ísabellu

Ísabella styrktarbarnið okkar á afmæli 12. nóvember nk. og verður þá þriggja ára. Börnin á Lundi settust niður og ræddu hugmyndir sínar um afmælisgjöf til hennar og einnig jólagjöf. Það er nefnilega hagstætt að senda þessar gjafir saman í einum pakka til Mwansa í Tansaníu. Allir fengu að koma með sína hugmynd og var hún skráð á stórt blað. Síðan voru hugmyndirnar ræddar og komist að niðurstöðu. Gjafirnar voru svo verslaðar og pakkað inn í gjafapappír sem börnin bjuggu til sjálf, ásamt kortum. Þau ætla svo að fara í pósthúsið á næstu dögum með pakkann.

Gæðamerki eTwinning

Nýlega fékk leikskólinn Álfaheiði sitt annað Gæðamerki (Qualitylabel) eTwinning. Að þessu sinni var það viðurkenning vegna eTwinningverkefnisins Children at the opera, bambini all'opera sem starfsfólk og börn á Hjalla vann að síðasta skólaár. Eins og nafn verkefnisins gefur til kynna var unnið með tónlist á mjög fjölbreyttan hátt. Hápunktur verkefnisins var svo söngleikur sem börnin sýndu foreldrum sínum á Opnu húsi í maí.

Gönguferð í haustblíðunni

Í dag fóru börn og starfsfólk á Hlíð í gönguferð. Þau fóru upp að Hjallakirkju yfir að Álfhólsskóla Digranes framhjá Digranesi og svo aftur í leikskólann. Þau tíndu laufblöð og sáu fallegt fiðrildi (Aðmíráll) á Hjallakirkju.

Skipulagsdagur

Við minnum á að næsta föstudag 27. september er lokað. Þann dag ætlum við að skipuleggja vetrarstarfið.

Dagur íslenskrar náttúru

Fátt hefur mótað íslenska þjóð eins og náttúran. Íslendingar hafa aðlagað líf sitt samspili elds og ísa, dyntóttum veðurguðum og kröftugum sjávarföllum. Um leið hafa þeir notið alltumlykjandi náttúrufegurðar og haft lífsviðurværi sitt af ríkulegum gjöfum náttúrunnar. Við héldum upp á Dag íslenskrar náttúru með því m.a. að teikna í náttúrunni. Börnin teiknuðu sig sjálf og náttúruna sem þau sáu í garðinum. Þau límdu einnig á blað laufblöð og greinar sem þau fundu í garðinum.