Leikskólinn er lögum samkvæmt fyrsta skólastigið í menntakerfinu og sér um nám barna á leikskólaaldri. Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi barna sinna og er leikskólanám viðbót við uppeldi þeirra en er á engan hátt ætlað að koma í stað þess. Á þessum grundvallaratriðum byggist foreldrasamvinnan. Mikilvægt er að foreldrar þekki kennara barnsins og annað starfsfólk skólans. Samskiptin þurfa að byggjast á gagnkvæmri virðingu og trausti. Dagleg samskipti og upplýsingastreymi eru mikilvægir þættir til að stuðla að jákvæðu og traustu sambandi milli foreldra og leikskóla. Foreldrar eru sérfræðingar í málefnum barna sinna og er því leitast eftir að hlusta eftir sjónarmiðum þeirra, til að mynda í foreldrasamtölum, í gegnum foreldraráð og foreldrafélag leikskólans.

Markmið foreldrasamvinnu er m.a.:
•að rækta samvinnu og samskipti leikskóla og heimilis
•að veita foreldrum upplýsingar um starfsemi leikskólans og fá upplýsingar um barnið frá foreldrum
•að stuðla að þátttöku foreldra í starfi leikskólans

Foreldrasamtal

Tilgangur foreldrasamtals er að veita gagnkvæmar upplýsingar um barnið og framgang þess. Boðið er upp á foreldrasamtal einu sinni á ári eða oftar ef þörf krefur eða foreldrar óska.

Álfagull minningabók barnsins

Þegar leikskóladvöl lýkur fær barnið bók með skemmtilegum minningum frá leikskóladvölinni s.s. listaverkum, gullkornum, verkefnum og myndum sem það hefur búið til á leikskólagöngunni. Leitað er eftir þátttöku foreldra með ýmiss verkefni sem fara í bókina sem vonandi veita foreldrum og ekki síst barninu sjálfu gleði og ánægju.

Trúnaður  -  tilkynningarskylda

Leikskólinn leggur áherslu á að fullur trúnaður ríki um allar upplýsingar er varða börnin og foreldra þeirra. Starfsfólk skólans undirrita sérstakt þagnarheit sem helst þó látið sé af starfi og er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu.
Ef talið er að líkamlegum/andlegum þörfum barns sé ekki sinnt ber að tilkynna það barnaverndaryfirvöldum Kópavogsbæjar, sbr. 13.gr. laga um málefni barna og ungmenna.

Bangsi sem fer heim með börnunum

Markmið þessa verkefnis er að gefa foreldrum innsýn í þau verkefni sem unnin eru í leikskólanum og að efla tengingu heimilis og skóla. Hlutverk bangsans er að auka umhyggju, virðingu, umburðarlyndi og hugrekki barnanna. Auk þess að efla samskiptin í barnahópnum sem og vináttu þeirra. Foreldrar ræða við börn sín um vináttu og kærleika og skrifa hugmyndir barnanna á blað sem börnin skreyta með mynd. Kennari les svo fyrir barnahópinn það sem foreldrar skrifa og barnið sýnir þeim mynd sína. Námsefnið okkar Lífsmennt og Vináttuverkefnið fléttast skemmtilega saman í þeim lífsgildum sem unnið er með í tengslum við bangsann.

SOS styrktarbarn

Álfaheiði er Sólblómaleikskóli en í því felst að leikskólinn styrkir eitt ákveðið barn í SOS Barnaþorpi eða styrkir samtökin á annan hátt, t.d. með söfnun einu sinni á ári. SOS Barnaþorpin eru stærstu einkareknu barnahjálparsamtökin í heiminum sem sérhæfa sig í að útvega munaðarlausum og yfirgefnum börnum heimili, foreldra og systkini.
Leikskólinn styrkir framfærslu Isabellu sem fædd er 12. nóvember 2016 og býr í barnaþorpinu Mwansa í Tansaníu. Þetta verkefni er samvinnuverkefni barna, foreldra og starfsfólks. Haldið er upp á afmælið hennar og í tilefni dagsins bjóða börnin foreldrum sínum í morgunkaffi og er baukur staðsettur á deildum fyrir frjáls framlög. Það má því segja að margt smátt geri eitt stórt.

Lestrarátakið, Það er gaman að lesa saman

Lestrarátakið, er haldið í nóvember ár hvert og er það samvinnuverkefni foreldra, leikskólans og Bókasafns Kópavogs. Góður málþroski er undirstaða lestrarnáms. Því betri málþroska sem börn hafa, því betur eru þau í stakk búin til að takast á við lestrarnám. Börn læra best þegar þeim líður vel og segja má að grunnurinn sé lagður heima í notalegri lestrarstund með foreldrum sínum.

Hefðir og hátíðir

Ýmsar hefðir og hátíðir eru viðhafðar í leikskólanum og eru börnin virkir þátttakendur í þeim. Börnin taka þátt í undirbúningi á fagnaðarfundum, opnu húsi, bóndadegi, konudegi, sumarhátíð, kirkjuferð og afmæli Isabellu styrktarbarns leikskólans svo eitthvað sé nefnt. Farið er á listasöfn, bókasöfn, í leikhús, á tónleika og ýmislegt annað sem auðgar starfið. Þannig taka börnin þátt í að móta menningu skólans en kynnast um leið menningu og hefðum íslensks samfélags.