Matartímar og borðhald hafa mikið uppeldislegt gildi og mikil áhersla er lögð á að börnin fái hollan og fjölbreyttan mat í leikskólanum. Matartíminn á að vera notalegur tími þar sem öllum líður vel. Þar gefst tækifæri til skemmtilegra og fræðandi umræðna. Starfsfólk matast með börnunum og áhersla er lögð á að börnin læri almenna borðsiði.

Ef barn er með ofnæmi eða mataróþol er reynt að koma til móts við það í samráði við foreldra en ávallt þarf að skila inn vottorði frá viðurkenndum lækni.  

Vinsamlegast komið ekki með mat í leikskólann því þar dvelja börn með bráðaofnæmi.  

Vandað er til hráefniskaupa og matreitt sem mest frá grunni og nær allt brauð bakað á staðnum. Ef notaðar eru unnar matvörur, sem er í algjöru lágmarki, þá er þess gætt að hráefnið sé sem hollast og innihaldi sem minnst af aukaefnum. Notuð eru hýðisihrísgrjón eða bankbygg sem meðlæti og í súpur og grauta.

Sykurnotkun er haldið í lágmarki og leitast er við að nota sætugjafa úr öðru en hvítum sykri t.d. hrásykri, hunangi, rúsínum og döðlum.

Leitast er við að nota heilhveiti í matargerð í staðin fyrir hvítt hveiti og er hvítu hveiti og heilhveiti blandað til helminga í bakstur og síðan bætt við öðrum grófari korntegundum og fræjum. Þetta á við um allan bakstur, líka skonsur, vöfflur og sætabrauð. Eingöngu er notast við heilhveitipasta eða spaghetti.

Vandað er val á kryddi og mestmegnis er notað krydd frá Pottagöldrum. Notkun salts er stillt í hóf, þar sem börnin eru viðkvæm fyrir of mikilli saltneyslu. Smjörlíki er notað í lágmarki, stöku sinnum íslenskt smjör og olíur. Smjörvi er notað sem viðbit.

Mjólkurvörur er leitast við að hafa sem minnst unnar. Nýmjólk er notuð fyrir yngstu börnin og léttmjólk fyrir þau eldri.

Á öllum deildum er aðgangur að vatni.

Markmið leikskólans er að nýta allt hráefni það vel að nánast ekkert fari í lífrænan úrgang.

Boðið er upp á þrjár máltíðir á dag í leikskólanum.

Samkvæmt Lýðheilsustöð þurfa börn á leikskólaaldri að borða 6 litlar máltíðir á dag. Það má því segja að börnin í Álfaheiði sem dvelja þar allan daginn fái 50 % af næringarþörf sinni í leikskólanum og 50 % fá þau heima.

Morgunverðurinn 
Hafragrautur, ávaxtabiti og teskeið (5 ml) af Þorskalýsi eða Krakkalýsi, sem veitir ráðlagðan dagskammt af D- vítamíni fyrir börn.

Hádegisverður í leikskólanum
Fiskur 2x í viku.
Kjötmáltíð 1-2 x í viku s.s. lambakjöt, kjúklingur, hakk.
Grautar, súpur, skyr, pasta, grænmetis / baunaréttir.
Heimabakað brauðmeti.
Grænmeti á hverjum degi.

Síðdegishressing í leikskólanum
Brauð, hrökkkex, sætabrauð stöku sinnum og mjólk. 
Álegg s.s. egg, kæfa, ostur, ávextir og grænmeti.