Viðtal við fyrsta sólblómaleikskólann 

Sjónvarpstöðinn Hringbraut kom í leikskólann okkar og kynnti sér starfsemina varðandi SOS-styrkarbarn. Viðtalið hefst á mínútu 17:45.

Isabella

 

Álfaheiði er Sólblómaleikskóli en í því felst að leikskólinn styrkir eitt ákveðið barn í SOS Barnaþorpi eða styrkir samtökin á annan hátt, t.d. með söfnun einu sinni á ári. SOS Barnaþorpin eru stærstu einkareknu barnahjálparsamtökin í heiminum sem sérhæfa sig í að útvega munaðarlausum og yfirgefnum börnum heimili, foreldra og systkini.

Við erum stolt af því að styrkja framfærslu Isabellu sem fædd er 12. nóvember árið 2016. Isabella býr í SOS barnaþorpinu Mwansa í Tansaníu. Í því búa 60 börn ásamt SOS mæðrum sínum en 1200 önnur börn njóta góðs af starfseminni í kringum þorpið.

Á afmælisdegi Isabellu bjóða börnin foreldrum sínum upp á afmæliskaffi og safna peningum til styrktar henni. Elstu börn leikskólans hafa það hlutverk að sjá um að velja afmælis- og jólagjafir handa henni og útbúa kort. Einnig fara þau á pósthúsið með pakkana og heimsækja SOS samtökin. Það ríkir alltaf mikil gleði í barnahópnum þegar þau fara með söfnunarféð í Hamraborgina þar sem aðsetur SOS samtakanna er.

Tansanía

Tansanía er í Austur Afríku og á landamæri við Kenía og Úganda í norðri, Rúanda, Búrúndí og Lýðveldinu Kongó í vestri, og Sambíu, Malaví og Mósambík í suðri. Í austri á það strönd að Indlandshafi og þar eru eyjarnar Sansibar, Mafia og Pempa sem tilheyra Tansaníu. Í höfuðborginni Dódómu búa um 410 þúsunds manns.

Flestir íbúar Tansaníu tala bantúmál og er svahílí  opinbert tungumál landsins. Hirðingjar sem tala nílótísk mál eru masajar og lúó-mælandi fólk. Einn hópur á Sansibar telur sig vera Shirazi, afkomendur fólks frá Persíu sem flutti íslam til eyjunnar á miðöldum.  Um þriðjungur íbúa Tansaníu eru múslimar, um þriðjungur er kristinn og um þriðjungur aðhyllist hefðbundin afrísk trúarbrögð.

Tansanía er 31. stærsta land heims og á landamæri í norðri og vestri við stóru vötnin, Viktoríuvatn og Tanganjikavatn. Í norðvesturhlutanum er fjallendi þar sem Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, stendur. Þar eru einnig nokkrir heimsþekktir þjóðgarðar, þeirra á meða Serengeti þjóðgarðurinn, Ngorongoro gígurinn og Gombe þjóðgarðurinn.

Heimasíða SOS samtakanna á Íslandi

Áður styrktum við hann Lucas sem bjó í SOS barnaþorpi í Argentínu. Hér er bæklingur um Lucas styrktarbarn í Álfaheiði unninn í samstarfi við SOS samtökin 2014.