Álfaheiði varð Réttindaskóli UNICEF  þann 18. nóvember 2022. Við leitumst eftir því að byggja upp lýðræðislegt umhverfi og rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútíma samfélagi.

Réttindaskólar byggja starf sitt á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sáttmálinn sem hefur að geyma 54 greinar sem snúa allar að réttindum barna og eru lykilhugtök hans, umhyggja, vernd og þátttaka. Sáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu.

Álfaheiði starfar eftir þessum áherslum og vinnur með námsefnið Lífsmennt (Living Values) sem byggir á lífsgildum og starfsháttum sem renna stoðum undir lýðræðislegt samfélag. Einnig er unnið með, forvarnarverkefni Barnaheilla, Vináttu til að fyrirbyggja einelti og mynda góðan skólabrag. Í Álfaheiði eru börn, starfsfólk og foreldrar samstarfsaðilar og er það talinn ávinningur fyrir alla að taka þátt í fjölbreyttu samfélagi óháð kynferði, bakgrunni, aðstæðum og getu. Með því að stuðla að jafnrétti er lagður grunnur að velferð einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífs og samfélagsins alls.

Lögð er áhersla á að börnin beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, þrói með sér samkennd, tillitsemi, umburðarlyndi og vináttu. Frumkvæði barna er eflt og styrkt, þannig verða þau hæfari til að takast á við líf og starf í lýðræðissamfélagi. Börnin eru hvött til að taka þátt í ákvörðunum sem varða líf þeirra og leik eftir því sem aldur og þroski þeirra leyfir. Þau fá tækifæri til að leysa deilur á jákvæðan hátt, gleðjast með öðrum og lifa í sátt við sig og umhverfi sitt. Með þátttöku barnanna og ákvörðunartöku í leikskólastarfinu eflum við kærleiksrík samskipti sem byggja á virðingu og lýðræðislegum vinnubrögðum.

Unnið er með þau atriði sáttmálans sem eru börnunum næst t.d. nafnið þeirra, heimili og fjölskyldutengsl. Leikskólinn styrkir framfærslu Ísabellu, stúlku sem býr í SOS barnaþorpi í Tansaníu. Börnin læra um hagi hennar og fræðast um réttindi  hennar til að eiga heimili og fjölskyldu um leið og þau fræðast um sín eigin réttindi.

Við teljum að greinarnar um rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar, til hvíldar, jafnréttis og leikja skipti miklu máli, einnig réttur barna gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi og hefur leikskólinn sett sér verklagsreglur til verndar börnum.