Grænfáninn
Leikskólinn Álfaheiði er umhverfisvænn leikskóli og hefur flaggað Grænfánanum frá árinu 2008. Grænfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Viðfangsefni (þemu) sem lögð er áhersla á eru vatn, orka, úrgangur (rusl), átthagar, samgöngur, lýðheilsa, loftlagsbreytingar, lífbreytileiki og staðardagskrá 21.
Á tveggja ára fresti þarf að sækja um leyfi til að flagga Grænfánanum til Landverndar með því að sýna fram á að skrefunum sjö sem umhverfisstarfið byggist á sé viðhaldið. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda og starfsfólks skólans um umhverfismál. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri og er það raunin í Álfaheiði. Leikskólinn starfar eftir umhverfisstefnu leikskóla Kópavogs.
Skrefin sjö sem umhverfisstarfið byggist á eru:
1. Umhverfisnefnd
Umhverfisnefnd starfar við skólann og sjá nefndarmenn um að leiðbeina, skipuleggja og stýra verkefnum sem lúta að umhverfismálum. Nefndin starfar samkvæmt lýðræðislegum leikreglum og hafa nemendur þar mikið vægi. Fundir eru haldnir reglulega þar sem skráðar eru fundargerðir. Þannig gegna umhverfisnefndirnar mikilvægu hlutverki í kennslu í lýðræðislegum vinnubrögðum þar sem virðing og væntumþykja fyrir náttúrunni og heilbrigt líferni er haft að leiðarljósi.
Nefndin er tvískipt, umhverfisnefnd elstu barna leikskólans ásamt kennurum þeirra annars vegar og umhverfisnefnd skipuð starfsfólki leikskólans og leikskólastjóra hins vegar.
2. Mat á stöðu umhverfismála
Staða umhverfismála er metin í skólanum með aðstoð sérstaks gátlista frá Landvernd einu sinni á ári. Matið nær til fjölmargra þátta og tekur starfsfólk og börn þátt í matinu. Einstök mál eru metin á fundum umhverfisnefndanna eða á skipulagsdögum.
3. Áætlun um aðgerðir og markmið
Þær upplýsingar sem matið veitir eru notaðar til að gera áætlun um markmið og aðgerðir, þannig er starfið í stöðugri þróun. Unnið er með ákveðin viðfangsefni (þemu) á fjölbreyttan hátt í lengri eða skemmri tíma.
Tímabil | Viðfangsefni |
---|---|
2008 - 2010 | Úrgangur (rusl) og átthagar |
2010 - 2012 | Átthagar og lýðheilsa, með tilliti til hreyfingar, næringar og andlegrar líðan |
2012 - 2014 | Átthagar og lýðheilsa, framhald |
2014 - 2016 | Lýðheilsa og vatnið. (vegna þróunarverkefnisins: molta - hringrás náttúrunnar var minna unnið með vatnið en áætlað var) |
2016 - 2018 | Vatnið |
2018 - 2020 | Lýðheilsa og hnattrænt jafnrétti |
2020 - 2022 | Átthagar - landslag og hnattrænt jafnrétti |
2023 - 2025 | Neysla - úrgangur og Lýðheilsa |
4. Eftirlit og endurmat
Stöðugt eftirlit og endurmat er í leikskólanum sem tryggir að settum markmiðum sé náð, þau viðurkennd og þeim fagnað og ný markmið sett. Þessi þáttur tryggir stöðuga umhverfismenntun í skólanum. Elstu börnin sjá um ásamt kennara um mánaðarlegt innieftirlit varðandi ruslasöfnun, vatns - og ljósanotkun.
5. Námsefnisgerð og tenging við námskrá
Öll börn leikskólans fá markvisst nám í umhverfismálum í samræmi við aldur og getu. Allur skólinn tekur mið af þeim viðfangsefnum (þemu) sem unnið er með hverju sinni. Námskrá leikskólans tekur mið af umhverfisstarfinu sem fléttast inn í allt starf skólans. Ýmiss skemmtileg verkefni eru í gangi og má þar nefna að á hverju hausti safna elstu börnin birkireklum fyrir Hekluskóga og einnig gróðursetja þau fræ að vori. Verðlaus efniviður er notaður í skapandi starf.
Starfsfólk leikskólans hefur útbúið tvo fyrirlestra, Umhverfisstarf í Álfaheiði og Gönguferðir/Skógarferðir.
6. Að upplýsa og fá aðra með
Leikskólinn reynir að hafa áhrif út á við í samræmi við Staðardagskrá 21, og hefur verið með kynningar um umhverfisstarfið, bæði fyrir starfsfólk annara leikskóla, með greinum í blöð og fræðslu til foreldra.
Sí- og endurmenntun starfsfólks snýst m.a. um að afla sér þekkingar á öllu sem varðar umhverfisstörfin og má þar nefna heimsóknir í umhverfisvæna leikskóla og aðra staði sem veita okkur innblástur. Einnig fer starfsfólk á ráðstefnur, málþing og námsferðir bæði hérlendis og erlendis.
Á hverju ári taka börn og starfsfólk þátt í ýmsum uppákomum þar sem vakin er athygli á lýðheilsu og umhverfismálum m.a. er dagur umhverfis haldinn hátíðlegur, Evrópska samgönguvikan sem haldin hefur verið í samvinnu við Kópavogsbæ, Ísland á iði og Hjólað í vinnuna.
Umhverfisráð Kópavogs veitti Álfaheiði viðurkenningu árið 2009 fyrir umhverfisstefnu leikskólans og framlags til umhverfismála.
7. Umhverfissáttmáli
Umhverfissáttmáli leikskólans: Okkur þykir vænt um jörðina lýsir í stuttu máli heildarstefnu skólans í umhverfismálum, umhverfismennt og framtíðarsýn. Sáttmálinn var ákveðin á umhverfisfundi elstu barna leikskólans.