Vinátta - Fri for mobberi
Vinátta er forvarnarefni frá Barnaheill, sem ætlað er að koma í veg fyrir að einelti þróist í barnahópum í leik- og grunnskólum. Efnið á að stuðla að öruggu, jákvæðu og heilbrigðu lífi fyrir börn í leik- og grunnskóla með því að byggja upp jákvæð samskipti, umhyggju og vináttu.
Við vitum að einelti getur átt sér stað í leikskólum og því er mikilvægt að hafa afskipti snemma og hefja forvarnarstarf í leikskólum til að koma í veg fyrir einelti. Vinátta er góð leið til þess.
Markmið Vináttu - verkefnisins er:
- að samfélagið í leikskólanum einkennist af umburðarlyndi og virðingu
- að skapa umhverfi þar sem börn sýna hvert öðru umhyggju
- að börn læri að bregðast við neikvæðri hegðun og einelti
- að virkja einstaklinga og gefa þeim hugrekki til að grípa inn í og verja félaga sína
Samkvæmt Vináttu - verkefninu er einelti slæmt mynstur eða samskipti sem þróast í aðstæðum og umhverfi þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum, í umhverfi sem börn hafa ekkert val um að vera í og komast ekki burt úr.
Alltaf skal skoða hópinn sem heild, en ekki einblína á að einhver sé slæmur og annar góður, ekki á geranda og þolanda. Verkefnið byggist því á að efla styrkleika hvers einstaklings og vinna með hópinn í heild, um samskipti, samlíðan, umhyggju og vináttu og vellíðan. Vinátta á því að stuðla að almennri menntun leikskólabarna í hæfni þeirra til að takast á við áskoranir daglegs lífs og í samskiptum við aðra.
Barnaheill sér um að fræða og þjálfa starfsfólk í notkun efnisins og fékk Álfaheiði tösku með fræðsluefni fyrir hverja deild. Í töskunni eru kennsluleiðbeiningar, nuddprógramm, samræðuspjöld, veggspjöld, klípusögur, fróðleikur fyrir starfsfólk og bangsinn Blær.
Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu og litlu hjálparbangsarnir eru ætlaðir hverju barni. Blær og hjálparbangsarnir tákna traust og vináttu og er ætlað að minna börnin á að passa upp á aðra og vera góðir félagar.
Það er lykilatriði fyrir árangur að börn, foreldrar og starfsfólk vinni saman til að koma í veg fyrir einelti. Hvatt er til samtala og leikja með börnum sem byggja á gildum verkefnisins; umhyggju, virðingu, umburðarlyndi og hugrekki. Gert er ráð fyrir fjölbreyttum vinnubrögðum, svo sem hlustun, umræðu og tjáningu í leik, jafnt úti sem inni.
Þú getur lesið meira um Vináttu á heimasíðu Barnaheillar.