Í Álfaheiði vinnum við með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með börnunum, allt eftir aldri þeirra og getu.
Barnasáttmálinn hefur að geyma 54 greinar sem snúa allar að réttindum barna. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Námsefnið Lífsmennt sem leikskólinn vinnur með er byggt á Barnasáttmálanum.
Unnið er með þau atriði sáttmálans sem eru börnunum næst, t.d. nafnið þeirra, heimili og fjölskyldutengsl.
Við teljum að greinarnar um rétt barna til hvíldar, jafnréttis og leikja skipti miklu máli. Einnig réttur barna gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi. Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Við teljum að með þátttöku barna og ákvörðunartöku í daglegum störfum eflum við samskipti sem byggja á virðingu, vináttu, samvinnu, heiðarleika, ábyrgð og á lýðræðislegum vinnubrögðum.
Leikskólinn er með styrktarbarn sem heitir Isabella og býr hún í SOS barnaþorpinu Mwansa í Tansaníu. Börnin læra mikið um réttindi, samkennd og ábyrgð og fræðast um hagi Isabellu. Greinar 8. 9. og 10 í Barnasáttmálanum fjalla um rétt barna til að halda tengslum við fjölskyldu sína, báða aðila, og að fjölskyldan fái að vera saman. Börnin velta m.a. fyrir sér spurningunum: Hvað er fjölskylda? Hvar búa fjölskyldur? Af hverju þurfa allir að eiga fjölskyldu? Hvernig er mín fjölskylda samsett? Hvernig er fjölskylda Isabellu samsett?
Notast er við könnunaraðferðina að hluta til en börnin byrja á að gera könnunarvef þegar nýtt efni eða hugtak er tekið fyrir. Hugmyndir barnanna verða þannig sýnilegar og þau taka eftir því að það sem þau segja skiptir máli. Eins og sést á þessum vef er unnið með greinar Barnasáttmálans m.a. í leik, myndlist, tónlist, sögulestri og með lýðræðislegum umræðum.
Á vefnum hér er að finna fróðleik um Barnasáttmálann. Þar eru einnig upplýsingar um Barnasáttmálann á hinum ýmsu tungumálum.