Value Based Education

Sími 4415400

Hlíð s.8214916

Fyrirsagnalisti

Aðlögun á Hlíð - 29.9.2018

Nú eru tæpir tveir mánuðir síðan leikskólinn byrjaði. Við fengum 8 frábær börn í aðlögun og voru 10 „gömul“ börn fyrir. Við erum öll að kynnast og börnin að kynnast leikskólanum og hvort öðru og hefur aðlögun gengið vel. Við munum halda áfram að kynnast hvort öðru og með tímanum förum við inn í markvisst dagskipulag. Við fáum svo tvö börn í viðbót í Október og verða þá 20 börn á Hlið.

Nokkrar mannabreytingar urðu fyrir sumarlokun og fengum við Aron Brynjar og Mörtu Elísabetu til starfa hjá okkur, Halldóra fór í veikindaleyfi og Hildur tók við deildastjórastöðunni.

Gönguferð í góða veðrinu - 28.2.2018

Í dag var frábært veður, við nýttum okkur það og fórum í gönguferð. Við skiptum hópnum í tvennt. Annar hópurinn fór niður í Kópavogsdal, við fórum m.a. niður margar tröppur, löbbuðum yfir tvær brýr, sáum tvo hunda og eina kisu. Á meðan hinn fór í aðeins styttri göngu upp að Digranesi og léku sér í leiktækjunum fyrir utan Hjallaskóla.

Duglegu börnin okkar - 3.11.2017

Síðustu misseri höfum við á Hlíð verið að kynnast, læra að leika saman, höfum verið að æfa okkur í fataklefanum að reyna að klæða okkur í og úr útifötum og við matarborðið erum við að æfa okkur að drekka úr glasi og nota hnífapör.


Í dag var bangsa- og náttfataball þar sem bangsarnir fengu að koma með okkur.  Öll börnin voru mjög dugleg að vera frammi í stóra salnum með öllum hinum að dansa og syngja. Kveðjustund og sumarfrí - 4.7.2017

Nú fer að líða að sumarfríi en leikskólinn lokar kl 13:00 föstudaginn 7 júli, hann opnar síðan aftur kl 13:00 þriðjudaginn 8 ágúst.


Við á Hlíð viljum þakka ykkur kærlega fyrir samveruna þetta skólaárið. Mikið er búið að vera gaman að fylgjast með börnunum vaxa og dafna. Nokkur börn munu koma aftur til okkar eftir sumarfrí meðan sum fara á aðrar deildir. Við munum sakna ykkar, sem betur fer fara þau ekki langt og það verður lítið mál að hoppa yfir girðinguna og næla sér í einn knús eða tvo.


Hafið þið það sem allra best í sumarfríinu ykkar.


Garðyrkja, hjóladagur og krabbar - 8.6.2017

Í gær stungu starfsmenn upp grænmetisgarðinn með dyggri aðstoð yngstu barnanna. Þau fundu orma, graslauk, hundasúru og rabarbara í hamaganginum. Við smökkuðum því á fyrstu uppskeru sumarsins en rabarbarinn var mjög súr að flestra mati en graslaukurinn og hundasúran gómsæt. Orminn smökkuðum við ekki.


Í dag komu foreldrar einnar stúlku með krabba, ígulker, krossfiska sem þau veiddu og leyfðu okkur að skoða. Það var mjög spennandi og öll börnin nutu þess að skoða sjávardýrin.

Hjóladagurinn var mjög skemmtilegur og við lékum okkur á sparkbílum, þríhjólum og jafnvægishjólum. Það skiptir miklu máli að vera með hjálm og við sáum það mjög vel þegar einn strákurinn datt á höfuðið en slapp með sprungu á vörinni því hann var með hjálminn sinn. Fleiri myndir koma inn í myndasafnið okkar.

Sumarið - 6.6.2017

Nú hlýtur eiginlega að mega segja að sumarið sé komið með tilheyrandi gleði og hamingju. Hamingja er einmitt gildið sem við einbeitum okkur að þessa dagana og svo margir tengja við sumarið. Í sumar leikum við meira úti og förum oftar í heimsókn í stóra garðinn og börnin sem fara á aðrar deildir í ágúst fara í stuttar heimsóknir á sínar nýju deildir. Deildirnar heita Brekka og Hjalli og við munum láta vita á upplýsingatöflunni okkar þá daga sem við förum í heimsóknir.


Við skrifuðum á töfluna um daginn að myrkvunartjöld geta verið sniðug lausn á þessum árstíma þar sem birta og langir dagar trufla oft svefntíma barna (og fullorðinna) og þau skilja ekkert í því að þau eigi að fara að sofa þegar það er dagur. Við vitum þó öll hvað svefninn er okkur mikilvægur og því geta svona gluggatjöld hjálpað mikið til.

Huggulegheit og Sveitaferð - 22.5.2017

Við höfum haft nóg um að snúast í garðinum okkar, bæði að leika okkur saman og hjálpast að með að taka aðeins til hendinni, svo lóðin okkar líti sem best út. Okkur þykir ótrúlega gaman og huggulegt að vera úti að leika :)  Einnig höfum við verið duglega að fara í göngutúra um hverfið okkar til að kynna börnin fyrir okkar nánasta umhverfi.


Sveitaferð

Laugardaginn 27. maí stendur foreldrafélagið að ferð að Hraðarstöðum í Mosfellsdal, mæting kl 13. Foreldrar koma sér sjálfir á staðinn á sínum bílum og taka með sér pylsur og pylsubrauð.


Inni á deildunum má finna skráningarblöð og frekari upplýsingar. Foreldrar og aðrir gestir greiða 600 krónur í þátttökugjald.

Dans - 2.5.2017

Við höfum æft dans með Rakel af miklum móð undanfarið og höldum því áfram í tvö skipti áður en foreldrar fá að sjá afraksturinn. Við dönsum Hundadans, Hókí pókí, Súperman, Hægri hönd og vinstri hönd og Hreyfa litla fingur. Þetta er mjög skemmtilegt og allflestir taka þátt. Við vonum að það fari að hlýna svo getum farið að nota strigaskó og jakka úti, það er auðvelt að klæða sig sjálfur í svona léttan fatnað.

Gönguferð og vísindatilraun - 20.3.2017

Í dag fóru allir hóparnir saman í góðan göngutúr um nærumhverfi leikskólans. Öll börnin höfðu gaman af því sem og kennarar :) Við skoðuðum Digranes, „skóginn“ þar við hliðina á og fórum á leikvöllinn við Digranesskóla.

Á miðvikudaginn 22. mars er dagur vatnsins. Við höfum verið að vinna með vatn í vetur og í dag söfnuðum við snjó í fötur og tókum þær inn á deild í smá vísindarannsókn. Hvað verður um snjóinn í hita??

Öskudagur - 7.3.2017

Allir hlægja á öskudaginn...það var mikið stuð hjá okkur á öskudaginn, við vorum í búningum og slógum "köttinn úr tunnunni" eða snakkið úr kassanum. Fleiri myndir eru á myndasíðunni.


Meiri snjór meiri snjó - 27.2.2017

Það hefur aldeilis snjóað hjá okkur á höfuðborgasvæðinu. Við fórum út að leika og það sem börnin nutu sín í veðurblíðunni í morgun. Það er góð líkamrækt að troða snjóinn og búa til slóða í lóðinni en þau fóru létt með það, með smá hjálp frá okkur auðvitað. 

 

Bóndadags og konudagskaffi - 20.2.2017

Takk fyrir komina í kaffi til okkar. Rosalega var gaman hvað margir gáfu sér tíma til að stoppa við og fá sér kaffi með okkur. Opið flæði - 7.2.2017

Á föstudag fögnuðum við nýju gildi, en nú fjöllum við um umburðarlyndi. Við lékum okkur líka í opnu flæði en þá eru allar deildir opnar og börnin fara um húsið og leika sér þar sem þau vilja. Það komu margir og heimsóttu okkur á Hlíð og nokkur Hlíðarbörn fóru á Lund og Hjalla í heimsókn. Þetta heppnaðist vel og var mjög skemmtilegt.


Þessa viku er umhverfisálfurinn Flóki í heimsókn hjá okkur en hann er lítil brúða sem fer á milli deilda með fræðsluefni um umhverfismennt. Við erum búin að skoða hann Flóka og fyrir ofan alla ljósarofa er mynd af honum, hann minnir okkur á að hafa ljósin kveikt þegar við erum inni og slökkva á eftir okkur þegar við förum. Hann reynir líka að passa að ekki sé fiktað í ljósunum. Endilega ræðið flokkun og umhverfismennt með börnunum, þau eru dugleg að koma með okkur á grenndarstöðvar og setja pappa í gáminn í leikskólanum.

Hreyfing í leikskólanum - 24.1.2017

Við hreyfum okkur úti sem inni. Hreyfing er mjög mikilvæg fyrir alla, samkvæmt lýðheilsustöð eiga börn að hreyfa sig minnst 60 mín á dag. Hreyfing hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan barna. Útivera og frjáls leikur í náttúrunni hefur áhrif á sjálfstæði, hreysti og þol, félagsfærni, sjálfstraust og hæfni til að leysa vandamál skv. Sabínu Steinunni sem skrifaði Færni til framtíðar. Úti nýtum við garðinn til þess að hlaupa göngustíginn og upp og niður brekkurnar, jafnvægisæfingar þegar við löbbum bríkina  á sandkassanum, rúllum okkur niður brekkuna, klifrum upp í rennibraut og rólurnar. Veðurfar hefur líka áhrif á hreyfinguna. Í snjónum er enn meiri áskorun að labba upp brekkur með snjóþotur, renna sér niður, halda jafnvægi og kúldrast í mjúkum snjónum og í rigningu er mikið um hopp í pollum og hraðar ferðir í rennibrautinni. Einnig förum við í gönguferðir um nánasta umhverfi.

Inni notumst við leikfimivagninn, þar eru allkonar tæki og tól til þess að þjálfa litla kroppa. Fleiri myndir og myndbrot eru inn á flickr. Hér má lesa upplýsingar um hreyfingu frá Lýðheilsustöð. Einnig er boðið upp á íþróttaskóla fyrir börn hjá t.d. Breiðablik, HK og Gerplu og handbókin Færni til framtíðar er full af hugmyndum fyrir foreldra varðandi hreyfingu og heilbrigði.Janúar - 10.1.2017

Nú er hversdagsleikinn kominn af stað og seinni hluti skólaársins hafinn. Við sendum öllum rafbók í tölvupósti fyrir jól og vonandi höfðuð þið gaman af. Við höldum svo áfram að leika og sprella saman á nýju ári. Það eru komnar nýjar myndir í desember og janúar myndir koma fljótlega í tölvupósti.


Sumarleyfi - 2.1.2017

Nú hafa foreldrar og starfsmenn ákveðið sumarleyfið næsta sumar. Niðurstaðan hefur bara aldrei verið jafn afgerandi. Við munum fara í sumarleyfi 10. júlí og þá verður lokað á hádegi kl. 13 föstudaginn 7. júlí og lokað til þriðjudagsins 8. ágúst kl.13.

Jólastuð - 6.12.2016

Þessa dagana erum við á fullu í jólagleði, við búum til jólaskraut og jólagjafir, syngjum jólalög og í lok vikunnar förum við í Hjallakirkju að syngja jólalög og svo er jólaball á vegum foreldrafélagsins á laugardag. Þetta eru jólalög sem við erum að syngja:

  • Adam átti syni sjö
  • Jólasveinar 1 og 8
  • Gekk ég yfir sjó og land
  • Nú skal segja
  • Í skóginum stóð kofi einn
  • Við kveikjum einu kerti á
  • Jólasveinar ganga um gólf
  • Göngum við í kringum einiberjarunn
Svo eru mörg fleiri sem við hlustum á við leik og starf. Við héldum upp á 26 ára afmæli leikskólans í síðustu viku og fórum í gönguferð með gler og plast í grenndargáma. Það hefur verið mjög mikið um veikindi hjá börnum og starfsfólki en við vonum að það sé yfirstaðið.


Takk fyrir komuna - 11.11.2016

Takk kærlega fyrir ánægjulega samveru í morgun. Mikið var gaman hvað þið voruð mörg sem gáfuð ykkur tima til að stoppa við og fá ykkur kaffi með okkur. Takk kærlega líka fyrir að hjálpa okkur að safna fyrir uppihaldi Lúkasar okkar. Það eru margar myndir frá samverunni í albúminu okkar á Flickr.

Göngutúrar, rigningartíð og skapandi vinna  - 7.11.2016

Þótt að það sé kominn nóvember er snjórinn ekki búin að vera í kortunum og mun ekki vera það á næstunni. Heldur fáum við sæmilega hlýtt veður og rigningu. Við skemmtum okkur svo vel úti að leika í pollunum með fötur og skóflur. Gott er að vera með tvenn pör af vettlingum, þar sem þeir eiga til að blotna eftir skamma útiveru.  Við höfum verið að fara í göngutúra um nærumhverfi leikskólans og hafa allir gott og gaman af því.
Sunneva, neminn sem var hjá okkur síðust tvær vikur hefur kvatt okkur og heldur sinni vegferð í náminu áfram. Hún bjó til slím handa okkur síðastliðinni viku við mikinn fögnuð barnanna.

Vísindi og sköpun - 25.10.2016

Undanfarið höfum við leikið okkur með ljóskubb á deildinni en frá honum kemur alls kyns lituð birta og hægt er að skoða hvernig henni má varpa á ýmsa hluti. Við höfum skoðað einhvers konar röntgenmyndir sem fylgdu með kubbnum og lok af skyrdósum sem eru alls konar á litinn og ýmislegt annað sem gaman er að skoða á ljóskubbnum. 

Í síðustu viku máluðum við haustmynd og ætlum að líma laufblöð á hana líka. Börnin hafa mjög gaman af því að mála og nutu sín vel. 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica