Value Based Education

Sími 4415400

Lundur s.8214918

Fyrirsagnalisti

Heimsókn í Hvalasafnið - 17.5.2018

Í dag tókum við rútu alla leið út á Granda í Reykjavík þar sem Hvalasafnið er til húsa.  Þar nutum við vandaðrar leiðsagnar um safnið og svo fengu börnin að leika sér í leikhorninu sem nýlega er búið að setja upp.

Útskrift - 4.5.2018

Í dag voru Lundarbörnin útskrifuð og þeim færð sjálfsmynd sín til eignar sem þau hafa unnið að í allan vetur. Að því loknu var öllum boðið í pylsupartý.

Upplýsingatækni - 3.5.2018

Í þessari viku voru börnin að læra grunnatriði forritunar í þessum leik. Börnin hjálpast að við að koma einu barni á ákveðinn reit til þess að barnið geti fengið sér rúsínu. Kenndar eru skipanirnar fram, aftur, til hliðar, snúa til hægri og vinstri. Þessir snillingar fóru bara létt með þetta, það var helst að hægri og vinstri vafðist fyrir þeim. Smellið hér til þess að sjá myndbrotið. 


Upplýsingatækni - 27.4.2018

Þessa viku voru börnin að taka upp söguna/ævintýrið sitt í smáforritinu Puppet Pals. Þetta var endapunkturinn á langri leið, eins og lesendur síðunnar hafa tekið eftir. Fyrst æfðu börnin sig mikið í forritinu, sömdu sögu, gerðu söguborð, útbjuggu allar persónur og fylgihluti og bakgrunna. Þá komu þau öllu saman inn í forritið og svo í þessari viku hófst upptakan. Við vorum svo lánsöm að fá að setja upp upptökuver í innra herbergi á Hlíð, þar er nánast enginn hávaði þegar öll börnin eru úti. Upptökurnar gengu mjög vel og börnin eru afar sátt með sögurnar sínar. Nú á eftir að ganga frá þeim þannig að hægt sé að sýna þær allar saman sem bíómynd. Við munum gera það saman í iMovie smáforritinu í iPadinum. Börnin ætla að bjóða öllum leikskólanum í bíó, með poppi og alles. Það verður gaman. Umhverfisálfar - 27.4.2018

Það fóru tveir umhverfisálfar um leikskólann í morgun. Þeir skoðuðu vel og vandlega hvort allir séu að standa sig við flokkun. Álfarnir byrjuðu á því að athuga hvernig starfsfólkið stendur sig, bæði í undirbúningsherberginu og í eldhúsinu. Þar var allt til fyrirmyndar. Síðan spurðu álfarnir hvort fullorðnir og börn eru dugleg að flokka sorpið, borða vel og drekka mikið vatn. Síðan en ekki hvað síst var spurt að því hvort allir væru friðsælir. Álfarnir litu niður í alla flokkunarkassa og ef deildirnar voru að standa sig fengu þær viðurkenningu, mynd af Láka umhverfisálfinum okkar. Í dag fengu allir merki, allir duglegir að flokka hér í Álfaheiði. 


Dans - 27.4.2018

Hún Rakel Ýr Ísaksen hefur verið að kenna börnunum dans síðan í vor og verður afraksturinn sýndur á opnu húsi föstudaginn 4. maí.


Upplýsingatækni - 20.4.2018

Við héldum áfram að vinna að persónugerð og búa til bakgrunna fyrir leikritin. Núna eru allir búnir svo að í næstu viku förum við að taka upp. Þetta hefur reynst aðeins tafsamara en við reiknuðum með vegna allra þessara frídaga. Meira hvað það er að trufla okkur að geta ekki verið í skólanum alla daga vikunnar. Börnin eru einstaklega áhugasöm um þessa vinnu og hlakka mikið til að byrja á upptökum. Við erum að hugsa um að verða okkur úti um stóran pappakassa til þess að freista þess að einangra umhverfishljóð. Spennandi hvernig þetta tekst til hjá þeim. 

Barnaóperan Gilitrutt - 17.4.2018

Í dag fórum við í Salinn í Kópavogi og hlýddum á barnaóperuna Gilitrutt. Óperan er samstarfsverkefni Hildigunnar Rúnarsdóttur tónskálds, Sölku Guðmundsdóttur rithöfundar og Heiðu Rafnsdóttur myndlistarmanns. Börnunum kom á óvart hve mikið var sungið og lítið talað en skemmtu sér engu að síður konunglega.

Kynning á Álfhólsskóla - 13.4.2018

Í þessari viku fórum við í 4 heimsóknir upp í Álfhólsskóla og fengum að kynnast skólastarfinu þar. Við kíktum meðal annars inn í smíðatíma, handavinnu, heimilisfræði, tölvutíma og leikfimi.  Einnig fengum við að kynnast dægradvölinni og kíktum við inn í bekki þar sem við leystum verkefni með fyrsta bekk.  Börnin voru bæði mjög áhugasöm og háttprúð og gekk þetta eins og best var á kosið.

Upplýsingatækni - 6.4.2018

Þessa viku og reyndar líka í vikunni fyrir páska héldu börnin áfram að vinna að sögunni sinni. Nú var komið að því að útbúa allar persónur og leikendur í sögunni ásamt bakgrunnum. Börnin tóku alveg ákvörðun um það sjálf hvernig persónurnar ættu að líta út og lögðu sig öll fram um að gera vel. Það var mikið nostrað við sumar persónurnar, enda voru börnin ánægð með útkomuna. Þau tóku svo ljósmyndir af verkunum og settu inn í Puppet Pals forritið. Í næstu viku höldum við svo áfram í þessari skapandi vinnu, því það voru ekki öll börnin mætt til þess að klára, en svo taka við upptökur, en sennilega verðum við að sæta lagi við þær þegar hljóðlátt er í leikskólanum. 

Umhverfisálfar - 6.4.2018

Það fóru tveir umhverfisálfar um leikskólann í morgun. Þeir skoðuðu vel og vandlega hvort allir séu að standa sig við flokkun. Spurðu svo hvort fullorðnir og börn eru dugleg að flokka sorpið, borða vel og drekka mikið vatn. Síðan en ekki síst var spurt að því hvort allir væru friðsælir. Álfarnir litu niður í alla flokkunarkassa og ef deildirnar voru að standa sig fengu þær viðurkenningu, mynd af Láka umhverfisálfinum okkar. Í dag fengu allir merki, enda sérlega duglegt fólk hér í Álfaheiði. 

Upplýsingatækni - 23.3.2018

Þá var komið að sögugerð frá grunni í upplýsingatækni þessa viku. Börnin eru núna orðin mjög flink í smáforritinu Puppet Pals og því hægt að halda áfram á næsta stig. Í þessari viku lærðu þau að vinna með söguborð. Þau sömdu saman sögu og teiknuðu síðan upp söguborð af því hvernig þau sjá fyrir sér að sagan muni líta út í Puppet Pals forritinu. Börnin voru einstaklega frjó og það komu fram margar frábærar sögur sem þau eru mjög ánægð með. 

Umhverfisálfar - 12.3.2018

Tvö börn fóru um leikskólann í dag og athuguðu hversu umhverfisvæn börn og starfsfólk í Álfaheiði eru. Þau komust að því að allir eru friðsælir og ganga vel um, eru duglegir að borða og drekka mikið vatn. Á öllum deildum er flokkað rétt og pappír vel nýttur, þess vegna fengu allar deildir viðurkenningu, mynd af honum Loka umhverfisáfli. 


Upplýsingatækni - 12.3.2018

Þessa viku og í síðustu viku héldum við áfram að æfa okkur í smáforritinu Puppet Pals. Börnin eru orðin þó nokkuð klár í að nota það núna. Þau eru mikið að átta sig á að þau þurfa að tala fyrir persónurnar svo það heyrist eitthvað í leikritinu. Einnig eru þau að fatta að það borgar sig ekki mikið að vera að minnka og stækka persónurnar, það kemur ekki vel út þegar horft er á myndbandið síðar. 

Upplýsingatækni - 2.3.2018

Þessa viku héldu börnin áfram að æfa sig í Puppet Pals. Nú var komið að því að setja sjálfan sig inn í forritið og leika. það er smá kúnst að skera út í myndina þannig að bakgrunnur myndarinnar hverfi. Hald þarf fingrinum niðru alla leið og það var sumum erfitt, en með æfingunni kom þetta. Það var mikið fjör og mikið helgið því það er svo gaman að leika sjálfan sig inni í forritinu. Börnin eru ennþá mjög upptekin af því að stækka og minnka myndirnar og er það í góðu lagi. Það sem er mest um vert er að þau hafi gaman af þessu og það hvetur þau áfram í að prófa nýja hluti. 

Upplýsingatækni - 23.2.2018

Við byrjuðum á nýju verkefni í dag. Börnin voru að læra á smáforrit sem heitir Puppet Pals. Þetta er skapandi smáforrit sem veitir þeim tækifæri á að semja sögur, leika fyrir persónur og útbúa þær og bakgrunna frá grunni. Börnin voru að kynnast forritinu í fyrsta sinn í dag og það var eins og þau hefðu aldrei gert annað. Þau áttuðu sig strax á því hvernig það virkar. 

Upplýsingatækni - 16.2.2018

Í þessari viku voru börnin að leika með músina inni í sögunni sinni. Aðal söguhetjan þurfti að gæta sín á illvættinum. Þannig að þau þurftu að forrita músina svo hún færi framhjá á þann stað sem hún ætlaði, í bíó, heim til pabba og mömmu og svo framvegis.

Umhverfisálfar - 16.2.2018

Í dag fóru tvö börn í hlutverk umhverfisálfa og fóru um leikskólann til þess að ræða við starfsfólk og börn um umhverfisvernd. Markmiðið er að efla umhverfisvitund allra sem kenna og nema í leikskólanum Álfaheiði, en eins og allir vita þá er skólinn Grænfánaskóli. Börnin skoðuðu flokkunarstöðvar þar sem þær eru og veittu umhverfisviðurkenningu ef vel var staðið að verki (mynd af Flóka). Svo spjölluðu þau um umhverfisvernd og spurðu börnin spurninga m.a. hvort þau væru dugleg að flokka í leikskólanum og heima, hvort þau væru dugleg að drekka vatn og ekki hvað síst hvort þau væru friðsöm. 

Konudagurinn - 16.2.2018

Í morgun buðum við mömmum og ömmum í konudagskaffi þar sem að gutlandi kaffi, ólgandi kleinur og brakandi vínber voru á boðstólum.  Það var góð mæting og þökkum við öllum fyrir komuna.


Öskudagur - 16.2.2018

Börnin á Lundi mættu í mjög fjölbreyttum búningum á öskudaginn og við stóðumst ekki mátið og tókum af þeim hópmynd