Value Based Education

Sími 4415400

Hjalli s.8214917

Fyrirsagnalisti

Daglegt líf - 16.8.2018

Þessa dagana er leikskólalífið að komast í fastar skorður, Við erum að prófa okkur áfram með breytt dagskipulag, en það er óhjákvæmilegt vegna þess að núna byrjum við daginn á morgunverði. Einnig kallar breytt samsetning barnahópsins á nýtt skipulag. Í vetur verða 16 börn fædd 2014 og 5 börn fædd 2015 á deildinni. Það þýðir að við verðum að skipta eldri hópnum í tvo hópa og verður alltaf annar þeirra inni og hinn úti á morgnanna. Yngri hópurinn verður eins og áður úti fyrir hádegi og inni eftir hádegi. 
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá því í gær, þegar börnin voru búin að velja sér viðfangsefni að vild og byrjuð að leika. Þetta var sérlega notalegt hjá þeim og þau kunna virkilega að meta það að hafa svona gott svigrúm til leiks. Við komum til með að hengja upp í forstofu hópaskiptinguna á næstu dögum og einnig dagskipulagið. 

Morgunverður - 16.8.2018

Í samræmi við óskir foreldra þá byrjuðum við með morgunverð hér í leikskólanum eftir sumarfrí. Morgunverðurinn stendur yfir frá kl. 8:15-9:00. Börnin þurfa því að vera mætt tímanlega í leikskólann hér eftir ef þau eiga að borða morgunverð. Best væri að þau væri ekki komin seinna en 8:50. Börn sem eiga dvöl frá kl. 9:00 eru ekki skráð í morgunverð. 
Við höfum verið að prófa okkur áfram með það hvaða fyrirkomulag hentar best. Við byrjuðum á því að hafa morgunverðinn sameiginlegan með Brekku og Hjalla, en það kom ekki nógu vel út, svo núna er hvor deild um sig með morgunverðinn. Börnin fara núna beint inn í innra herbergi deildarinnar og borða þar morgunverð. Það hefur gengið mjög vel, en við minnum foreldra á að láta okkur vita ef börnin eru búin að borða og fá lýsi. 

Velkomin aftur í skólann - 16.8.2018

Verið velkomin aftur til samstarfs og við bjóðum sérstaklega nýja foreldra og börn þeirra velkomin á Hjalla. Það hafa orðið örlitlar breytingar í starfsliði deildarinnar. Lollý deildrastjóri hætti hjá okkur og fór að starfa við sérkennslu í Álfhólsskóla. Í hennar stað kemur hún Hrönn Valgeirsdóttir sem var áður á Hlíð. Aðrir hafa verið og verða áfram, en auk þess kemur til starfa í september Kolbrún Jarlsdóttir, en þá fara þær Elísabet og Lena í minna starf vegna þess að þær eru nemar í Háskóla Íslands. Starfslið deildarinnar er því eftirfarandi og starfar mis mikið og á misjöfnum tímum::
Hrönn deildarstjóri
Anna Rósa leikskólakennari
Fjóla leikskólasérkennari
Guðrún Rósa leiðbeinandi
Guðrún Ósk leiðbeinandi
Kolbrún leiðbeinandi
Elísabet leiðbeinandi og
Lena leiðbeinandi. 

Álfhólsskóli-Hjalli - 3.7.2018

Við fórum í síðustu ferðina okkar í dag. Eitt barnið valdi að fara á skólalóð Álfhólsskóla-Hjalla. Þar er að finna nýuppgerða skólalóð sem gaman var að heimsækja. Börnin léku sér í leiktækjunum eins og sjá má á mynunum, en það var alveg rosalega gaman. 


Náttúrufræðistofa heimsótt - 26.6.2018

Eldri börnin fóru í heimsókn í Náttúrufræðistofu Kópavogs í morgun. Það var afar áhugaverð heimsókn. Kristín safnakennari tók vel á móti okkur og sýndi og ræddi við börnin um dýrlíf á Íslandi. Aðallega vorum við að ræða um fugla og fiska, en einnig um margt annað t.d. jarðfræði eldgosa. Senuþjófurinn í Náttúrufræðistofu var hann Pétur mús. Pétur er í búri í anddyrinu og hann heillaði börnin með gáska sínum. Þegar við komum út úr safninu heillaði hoppudýnan, en vegna veðurs var ekki í boði að leika sér á henni í þessari ferð. Við fórum inn i lítið hús sem byggt var úr endurunnu efni eins og geisadiskum og plexígleri. Við fórum líka í ímyndað ferðalag á töfrateppi sem málað var á malbikið. Frábær ferð og takk kærlega fyrir okkur.


Bókasafnsferð - 19.6.2018

Í dag fóru börnin fædd 2013 með strætó í Bókasafn Kópavogs. Þar tók Gréta Björg á móti þeim og kenndi þeim umgengni um bækur. Börnin fengu svo að skoða sig um í bókasafninu og skoða bækur. 

Bangsarnir flytja - 13.6.2018

Það eru ekki bara börnin sem flytja á Lund um sumarfrí. Í dag lögðu bangsarnir þeirra í ferðalag og fluttu líka. Þeim var haganlega komið fyrir í geimskipi sem elstu börnin voru búin að búa til.  

Útieldun - 12.6.2018

Börn fædd 2013 elduðu súpu og snæddu úti við eldstæðið í dag.


Víghóllinn heimsóttur - 24.5.2018

Eitt barnanna valdi að fara á Víghólinn og í dag var sá miði dreginn upp úr krukkunni. Við áttum góða stund saman á Víghólnum. Við virtum fyrir okkur útsýnið, sáum fjöllin í fjarska, m.a. Esjuna, Akrafjallið, Bláfjöll, en Keilir var í þokunni. Börnin hlustuðu á álfana í steinunum og þeir voru greinilega að elda sér hádegisverð. Við fengum okkur hressingu áður en við fórum að príla á stóra steininum. Börnin fengu þá áskorun að reyna að komast upp á steininn og það tókst flestum. Á heimleiðinni stikluðum við á steinum og tókum myndir í hliðinu að svæðinu.


Leikfimi - 18.5.2018

Einu sinni í viku á þriðjudögum fara börn fædd 2013 í leikfimi í Íþróttahúsið Digranes. Það er mikið fjör og mikið gaman eins og sjá má í þessu myndbandi. 

Miðvikudagsferð - 16.5.2018

Á miðvikudögum í vor og í sumar fá eldri börnin (fædd 2013) að ákveða hvert er farið á miðvikudagsmorgnum. Hugmyndir barnanna voru skrifaðar niður á miða og settar í krukku, svo er dregið út hvert er farið. Í morgun fórum við í eina slíka ferð, strætóferð. Við tókum strætó fyrir neðan Hjallakirkju og fórum einn hring um efribyggðir Kópavogs. Eins sjá má á myndunum þá sáum við margar byggingar á leið okkar og útsýnið var líka ágætt þegar komið var upp í Kórahverfi. Við sáum leikskólann, Turninn, Smáralind, Íþróttamiðstöðina í Kórahverfi og margt fleira. Skemmtilegast var þó að vera í strætó.


Heimsókn - 5.4.2018

Í gær fengum við gest frá menntavísindasviði HÍ, það var hún Skúlína Hlíf Kjartansdóttir aðjúnkt og doktorsnemi í menntunarfræðum með áherslu á upplýsingatækni. Skúlína hafði áhuga á að fylgjast með börnunum læra forritun.Upplýsingatækni - 28.3.2018

Eldri börnin voru í dag að leika sér með smáforritið Quiver. Þau lituðu myndir sem hægt er að nálgast á 
netinu og fylgdust svo með þeim lifna við í gegnum iPadana okkar. Þetta þótti þeim öllum mjög spennandi.

Opið hús - 11.5.2017

Við skemmtum okkur öll vel á opnu húsi í dag. Börnin stóðu sig með sóma í dansinum og voru mjög stolt þegar þau sýndu gestum sínum verkin sín. Í hádeginum var pylsupartý – gaman – gaman.


Útivera í góða veðrinu - 11.5.2017

Þegar gott er veður erum við mikið úti í allskonar leikjum.


Líf og fjör í apríl á Hjalla - 11.5.2017

Við höfum alltaf nóg fyrir stafni í leikskólanum. Börnin sem fædd eru 2012 eru byrjuð að fara þær gönguferðir sem þau völdu sér. Við fórum m.a. á sparkvöllinn í Álfhólsskóla og lékum okkur þar í stórfiskaleik og fótbolta.
Það er mjög gaman að leika sér úti í rigningunni eins og sjá má hjá börnunum sem fædd eru 2013 og ´14.
Innandyra er margt hægt að dunda sér við s.s. að leika leikrit, bjóða til veislu eða taka myndir.

Mars á Hjalla - 24.4.2017

Í mars sáum við brúðuleiksýninguna Íslenski fíllinn en þessi saga fjallar á einstakan hátt um vináttu og hvað það er mikilvægt að taka vel á móti þeim sem eru að aðlagast nýjum aðstæðum.  Eldri börnin eru mjög dugleg að teikna og ákáðu að búa til bækur til að teikna í.  Þau fóru í gönguferðir í Ævintýraskóginn og þar var ekki síður gaman að klifra en í Apaskóginum. Á leiðinn heim var sprett úr spori og margar tröppur sem fara þarf til að komast heim aftur. Einnig var farið á Vighólinn að leika sér. Yngri börnin fóru í heimsókn í leikskólann Efstahjalla og mikið var nú skemmtilegt að leika sér þar.

Börnin eru dugleg í dansinum og eru spennt að sýna ykkur foreldrunum sporin á opnu húsi þann 11. maí nk.Febrúar á Hjalla - 24.4.2017

Ýmislegt var brallað bæði inni og úti í febrúar. Innandyra vorum við að mála, teikna, klippa, leira, líma, kubba og tefla. Það er alltaf mjög skemmtilegt í opnu flæði en þá fá börnin að fara út um allt hús og leika sér. Listin var í hávegum höfð og yngi börnin skiptast á að vera veðurfærðingar á morgnanna. Það snjóaði mikið í febrúar og það er mjög skemmtilegt að leika sér í snjónum. Við förum í gönguferðir einu sinni í viku og í febrúar var farið að heimahúsum eldri barnanna. Apaskógurinn var heimsóttur og þar þarf að sýna mikið hugrekki þegar klifrað er í trjánum.


Öskudagurinn - 6.3.2017

Það var mikið líf og fjör á öskudaginn eins og sjá má á þessum myndum. Bæði börn og starfsfólk mætti í búningum og mikil fjölbreytni var í búningavali. 


Konudagurinn - 20.2.2017

Þær voru margar mömmurnar og ömmurnar sem mættu í morgunkaffið á konudaginn og gaman að sjá hversu margir mættu með fín höfuðföt. Við þökkum ykkur kærlega fyrir komuna.