Læsisstefna Álfaheiðar

Mál og málörvun

Tungumálið er mikilvægasta tæki mannsins til boðskipta og á leikskólaaldri er lagður grunnur að málþroska barna. Málrækt fléttast inn í allt starf leikskólans og ýmsar leiðir eru farnar til að efla málþroskann, í daglegu starfi, leik, við lestur, sögugerð, myndsköpun og ritmálið er sýnilegt á öllum deildum.

Tákn með tali er notað með börnunum en það styður við máltöku þeirra. Málþroski barna á fjórða ári er kannaður með EFI málþroskaskimun og hljóðkerfis- og málvitund elstu barna leikskólans er könnuð með Hljóm – 2 en þetta eru greiningartæki í leikjaformi.

Boðið er upp á leiki og námsefni sem örvar hljóðkerfis- og málvitund barnanna og má þar nefna: Sögugrunninn, Bassa, Lubbi finnur málbeinið, Bínu bálreiðu, Leikum og lærum með hljóðin og Teiknitúlkun, leikur að orðum. Í Teiknitúlkun er fjallað um texta í ákveðnu lagi eða sögu, hann krufinn, sunginn og teiknaður. Með aðferðinni fá börnin tækifæri til að tjá hugmyndir sínar og koma hugsunum sínum í orð og myndir. Þar með gefst kennaranum tækifæri til að skyggnast inn í hugarheim barnanna og auka skilning sinn á því hvernig börn hugsa.
Börnin fá tækifæri til að taka þátt í skapandi ferli, gleðjast yfir eigin sköpunarkrafti, skilja textann eða orðin sem þau syngja og tjá upplifun sína í gegnum myndsköpun.

 

Það er gaman að lesa saman - allan nóvember

Lestrarátakið, Það er gaman að lesa saman, stendur yfir allan nóvembermánuð ár hvert. Lestrarátakið er unnið í samvinnu við foreldrafélag skólans og Bókasafn Kópavogs.

Rannsóknir sýna að ef lesið er fyrir börn frá unga aldri eykur það velgengni þeirra í námi síðar á ævinni og má segja og foreldrar séu fyrstu kennarar barnanna. Grunnurinn er lagður heima. Fyrstu kennslu í lestri fær barnið í  notalegri lestrarstund með foreldrum sínum.

Lestur fyrir börn:

  • eflir málþroska
  • eykur orðaforða
  • örvar ímyndunarafl
  • vekur forvitni
  • eykur lestraráhuga
  • er fræðandi
  • eykur einbeitingu

Þennan mánuð er bókakassi á hverri deild og geta börnin fengið að láni eina bók í einu. Öll börn fá blað með sér heim þar sem krossa ber í reit þegar foreldrar hafa lesið með barni sínu. Þegar búið er að krossa í alla reitina, einn reitur er hámark á dag, á barnið að koma með blaðið í leikskólann og fær bókaverðlaun eða viðurkenningu frá foreldrafélaginu í lok átaksins.

Dagur íslenskrar tungu,16. nóvember, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, er ávallt haldinn hátíðlegur í leikskólanum með fagnaðarfundi í sal í umsjá elstu barnanna. Öll  börnin taka þátt, syngja, fara með ljóð eða leika leikrit eða gera sér eitthvað annað til skemmtunar í tilefni dagsins.

Nóvembermánuður er því helgaður okkar ylhýra máli með lestri góðra bóka, ljóðalestri og söng.