Value Based Education

Sími 4415400

Fundargerðir

Fyrirsagnalisti

Fundur foreldraráðs leikskólans Álfaheiði 2. maí 2018. - 7.5.2018

Fundur foreldraráðs leikskólans Álfaheiði 2. maí 2018.

 

Fundur hófst kl. 16:30

Fundinn sátu: Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Ingibjörg Sólrún Ágústsdóttir, Silja Ingólfsdóttir og Svanhildur Anja Ástþórsdóttir. Fjarverandi var Einar Sigurðsson.

 

 

Niðustöður viðhorfskönnunar foreldara á vegum Skólapúlsins

 

Farið var yfir niðustöður viðhorfskönnunar á vegum Skólapúlsins. Foreldrar fengu niðurstöður könnunar sendar með tölvupósti 29. apríl. Þátttaka í könnuninni var mjög góð, svarhlutfall 89%. Niðurstöðurnar eru birtar með samanburði við landsmeðaltal og kom leikskólinn mjög vel út. Flestallir foreldrar eru mjög ánægðir með leikskólastarfið. Til að gera gott starf enn betra eru niðustöður könnunarinnar skoðaðar af starfsfólku leikskólans með tilliti til starfsins og skipulags í skólanum almennt auk þess sem teknar eru sérstaklega til skoðunar ábendingar sem settar eru fram í opnum spurningum könnunarinnar. 

 

Niðurstöður könnunar um morgunmat í leikskólanum

 

Í leikskólanum hefur til þessa ekki verið boðið upp á morgunmat en í stað þess hefur verið ávaxtastund á öllum deildum á milli kl. 9 – 9.30 (misjafnt eftir deildum hvenær nákvæmlega). Var þessi leið farin vegna ráðlegginga Lýðheilsustofnunar. Á undan förnum árum hefur orðið vart við aukinn áhuga foreldra á því að boðið sé upp á morgunmat í leikskólanum. Var því farin sú leið að leggja könnun fyrir foreldra þar sem spurt var hvort óskað væri eftir því að þessu yrði breytt og í stað ávaxtastundar yrði boðið upp á hafragraut á milli kl. 8:15 og 9:00. Niðurstöður könnunar voru þær að yfirgnæfandi meirihluti svarenda vill að morgunverður (hafragrautur) verði í boði. Mun þetta verða útfært í leikskólanum og frá og með haustinu 2018 verður boðið upp á hafragraut en ávaxtastundin tekin af dagskrá. Verður þetta kynnt betur þegar nær dregur.

 

Ábending foreldra vegna bíla í gangi og hliða inn á leikskólalóð.

 

Fulltrúar foreldra í foreldraráði vilja koma á framfæri ábendingu þess efnis að nokkuð sé um það að bílar séu skildir eftir með vélina í gangi fyrir utan leikskólann. Einnig er brýnt að þess sé gætt að hliðunum sé ávallt lokað.

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 17:30

Fundur foreldraráðs leikskólans Álfaheiði 5. apríl 2017 - 6.11.2017

Fundur hófst kl. 17:00


Fundinn sátu: Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Einar Sigurðsson,
Ingibjörg Sólrún Ágústsdóttir, Silja Ingólfsdóttir og Svanhildur Anja Ástþórsdóttir.


Efni fundar:


Elísabet greindi frá heimsókn Dr. Neil Hawkes til landsins. Neil er stofnandi Valued based Education (VbE) en Álfaheiði er lífsmenntaskóli samkvæmt stöðlum VbE. Verður hann gestur á ráðstefnu hér á landi en ætlunin er að hann heimsæki leikskólann ásamt eiginkonu sinni Jane Hawkes. Í tengslum við heimsókn þeirra til landsins verður einnig haldinn fyrirlestur í sal Digranesskóla 25. apríl milli kl. 17 og 19. Yfirskrift fundarins er „Góðir starfshættir hjá skólum sem byggja á góðum gildum“. Starfsfólk leikskólans mun sækja fundinn en allir eru velkomnir og verður hann kynntur foreldrum.

Elísabet greindi því næst frá stöðu starfsmannamála. Nokkrar breytingar verða frá næsta hausti þar sem nokkrir starfsmenn eru að hætta og fara í leyfi. Auglýsa á eftir starfsfólki á næstunni og von allra að gott starfsfólk sæki um og starfsmannamál leikskólans verði áfram í góðum farvegi, þar sem starfsmannavelta hefur verið lítil og góður andi meðal starfsfólks.

Ætlunin er að endurskoða námskrá leikskólans og koma Lífsmennt þar inn. Verður þetta kynnt betur síðar.

Því næst var rætt um stöðu skráninga barna í leikskólanum og almennt í leikskólum í Kópavogi. 19 börn munu útskrifast í vor og 20 börn verða tekin inn í leikskólann í haust.


Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 17:50.

Fundur foreldraráðs leikskólans Álfaheiði 25. október 2016 - 14.11.2016

Fundur hófst kl. 16:30

Fundinn sátu: Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Einar Sigurðsson,
Ingibjörg Sólrún Ágústsdóttir, Silja Ingólfsdóttir og Svanhildur Anja Ástþórsdóttir.


Efni fundar:
Kosning formanns og ritara ráðsins. Á þessum fyrsta fundi nýkjörins foreldraráðs var samþykkt að Silja Ingólfsdóttir tæki að sér formennsku og Svanhildur Anja Ástþórsdóttir yrði ritari.

Starfsáætlun Álfaheiðar 2016-2017 lögð fram. Elísabet gerði grein fyrir því helsta sem þar kemur fram og voru einstök atriði rædd. Einkum var rætt um bætt/aukið upplýsingaflæði frá leikskóla til foreldra sem var einn af þeim þáttum sem foreldrar komu með ábendingar í viðhorfskönnun sem send var foreldrum allra leikskólabarna í Kópavogi var send í apríl 2016. Elísabet fór yfir starfsmannamál og er almennt mikil ánægja með starfsmannahald og þann stöðugleika sem þar ríkir. Engar athugasemdir voru gerðar við áætlunina og hún samþykkt.

Rætt var um hádegismat í leikskólanum einkum þar sem þeim hefur fjölgað mjög sem neyta ekki kjötafurða. Almenna reglan í leikskólum í Kópavogi er sú að tekið er tillit til barna með staðfest fæðuóþol við matargerð í leikskólanum og þurfa foreldrar að skila inn vottorði frá viðurkenndum lækni. Ekki hefur verið hægt að leyfa það að börn komi með mat að heiman vegna óþols og ofnæmis barna sem dvelja í leikskólanum. Málið rætt og niðurstaðan sú að til þess að verða megi við óskum hvers og eins án tillits til staðfests fæðuóþols eða ofnæmis verði að koma til stefnubreyting frá Kópavogsbæ. Ekki er á hendi leikskólans sjálfs að breyta um stefnu þegar ekki er tekið tillit til þess í fjárhagsáætlun eða starfsmannahaldi af bæjarins hálfu.

Elísabet kynnti sameiginlegt verkefni leikskóla í Kópavogi í vetur þar sem megináherslan er á læsi og verður unnið að sameiginlegu þróunarverkefni allra leik- og grunnskóla í Kópavogi, en verkefnið nefnist  Læsi er meira en stafa staut.  Endurmenntun starfsfólks og starfið í vetur mun því snúast um læsi og lestur. Elísabet kynnti bæklinginn Eflum málþroska sem dreift verður til foreldra í leikskólanum í nóvember en sá mánuður er helgaður árlegu lestrarátaki í leikskólanum, Það er gaman að lesa saman. Lestrarátakið er unnið í samvinnu við foreldrafélag skólans og Bókasafn Kópavogs.

Elísabet kynnti viðfangsefni vetrarins sem unnin verða í leikskólanum í sambandi við Grænfánann. Þar verður unnið með vatnið og verkefni í tengslum við þemað útfært á hverri deild eftir því sem við á.

Eldhúsið í leikskólanum var tekið í gegn sumarið 2016 en það var upprunalegt og endurbætur því tímabærar. Í nokkur ár hafa borist ábendingar um umbætur við reglubundið eftirlit vinnu – og heilbrigðiseftirlits.

Fundartímar ráðsins á komandi vetri ræddir en áætlað er að næsti fundur foreldraráðs verði haldinn í janúar 2017.

Fundur foreldraráðs Álfaheiðar 11. maí 2016 - 11.5.2016

Fundinn sátu; Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Halla Valgeirsdóttir, Halldór Árni Bjarnason, Júlíus Þór Sigurjónsson, Silja Ingólfsdóttir og Margrét Ludwig sem ritaði fundargerð.


  1. Ræddar voru niðurstöður foreldrakönnunar leikskóla 2015-2016 sem Skólapúlsinn framkvæmdi í mars á þessu ári en Álfaheiði kemur mjög vel út úr könnuninni í samanburði við aðra leikskóla á landinu. Margar góðar og gagnlegar ábendingar bárust sem verið er að vinna úr, t.d. um hvernig má bæta upplýsingamiðlun til foreldra um það sem á daga barnanna drífur, t.a.m. um það hvaða lög er verið að syngja á hverjum tíma. Var rætt um að nýta betur töflurnar sem er skrifað á frammi í hverri deild og senda oftar tölvupóst um starfið á deildum. Einnig komu fram nokkrar ábendingar  um að bjóða hefðbundin morgunverð en ákvörðunin á sínum tíma sem studd var af Lýðheilsustofnun var að auka ávexti í fæði barna út frá næringarfræðilegu sjónarmiði um fjölbreytni.  Ákveðið var að bíða eftir niðurstöðum könnunarinnar að ári og taka þá málið upp aftur, ef þörf er á. Önnur atriði sem þarf að skoða er að svo virðist sem foreldrum finnist þeir ekki vera virkir þátttakendur í flutningi barna sinna á milli skólastiga. Elísabet ætlar að ræða við skólastjóra Álfhólsskóla um hvernig skólinn megi bæta upplýsingagjöf og samráð við foreldra þeirra barna sem eru að hefja grunnskólagöngu sína, t.d. með því að hafa kynningarfund fyrir foreldra fyrir vorskólann.

     

  2. Elísabet sagði fundarmönnum frá ferð starfsmanna leikskólans til Brighton 5.-8. maí sl. Þar skiptu starfsmenn sér niður á þá fimm leikskóla sem skoðaðir voru og þóttu gefa góða innsýn í þá breidd sem er í boði í leikskólum í Bretlandi, bæði einkareknum og opinberum.

     

  3. Elísabet sagði frá því að nú væri nýlokið kynningarfundi fyrir foreldra barna sem hefja leikskólagöngu næsta haust og eru yngstu börnin fædd 2014 og því engin börn tekin inn sem fædd eru 2015. Framundan er svo aðlögun  á milli deilda en formlega byrja þau í ágúst á nýrri deild.  Í vetur var gerð tilrauna með að sameina Sunnu og Mána í eina deild sem hlotið hefur nafnið Hlíð og hefur sú breyting gefist mjög vel.  Formlegt endurmat mun svo fara fram á  starfsmannafundi  í júní . Jafnframt kom fram að litlar sem engar breytingar væru fyrirhugaðar á starfsliði leikskólans.

     

  4. Að lokum sagði Elísabet frá því að eldhúsið verður tekið í gegn í sumar en eins og fram kom á fundi foreldraráðs í nóvember sl. voru endurbætur tímabærar vegna þeirra ábendinga sem borist höfðu við reglubundið eftirlit Heilbrigðiseftirlits.

Fleira var ekki rætt.
Fundi slitið 17.50.

Fundarritari Margrét Ludwig.

Fundur foreldraráðs 13. janúar 2016 - 13.1.2016

Fundinn sátu: Elísabet, Silja, Halldór, Halla og Júlíus

Skemmtilegri leikskólalóðir“ - Bæjarstjórn Kópavogs hefur sett sé metnaðarfulla áætlun um að skólar í Kópavogi eigi að halda sér í fremstu röð. Eitt þessara verkefna er skemmtilegri skóla- og leikskólalóðir. Búið er að skipa starfshóp sem gerir tillögur um forgangsröðun verkefna til næstu ára. Á skipulagsdaginn 18. janúar verður verkefnið kynnt starfsmönnum. Elísabet nefnir að einhverjar endurbætur hafi átt sér stað sumarið 2015. Hugsanlega mæti ræða við elstu börnin og sjá hvaða hugmyndir þú hafa varðandi breytingar/bætingar á lóðinni. Elísabet óskaði eftir því við bæinn að fá ýtarlegri útskýringar á vissum þáttum sem komu fram í bréfi frá skipulagsnefnd/Kópavogsbæ.

Halla spurði út í svarhlutfall í viðhorfskönnun um sumarlokun og í ljós kom að svörun var 79% það sem af er. Starfsmenn fengu í fyrsta sinn að taka þátt í kosningunni.

Elísabet tekur fram að starf leikskólans gangi vel en eitthvað væri um langtímaveikindi. Allar stöður væru hins vegar leystar.

Silja stingur upp á því að hafa nafn á starfsfólki og mynd á heimasíðu leikskólans

Elísabet segir frá námsferð til Brighton sem verður farin dagana 5. - 8. maí en skipulagsdagur leikskólans er föstudaginn 6. maí.

Rætt var að stígurinn vestan meginn við leikskólann væri aldrei mokaður. Eitthvað sem þarf að athuga. Elísabet æltar að ræða við bæinn

Fleira ekki gert.
Fundi slitið kl. 18
Fundarritun Júlíus.

Fundur foreldraráðs 4. nóvember 2015 - 4.11.2015

Fundinn sátu; Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Halla Valgeirsdóttir, Halldór Árni Bjarnason, Silja Ingólfsdóttir og Margrét Ludwig sem ritaði fundargerð. Júlíus Þór Sigurjónsson boðaði forföll.

Á þessum fyrsta fundi nýkjörins foreldraráðs var samþykkt að Halla Valgeirsdóttir tæki að sér formennsku og Margrét Ludwig yrði ritari.

Elísabet sagði frá því sem er á döfinni á næstunni í tilefni af baráttunni gegn einelti. Föstudaginn 6. nóvember nk. munu 4 og 5 ára börnin í leikskólanum fara í svokallaða Vinagöngu ásamt nemendum Álfhólsskóla. Jafnframt munu hátíðahöld í tilefni baráttunnar gegn einelti fara fram í húsnæði leikskólans mánudaginn 9. nóvember en fyrir þeim stendur Menntamálastofnun í samvinnu við Kópavogsbæ.

Rætt var um 25 ára afmæli leikskólans 1. desember nk. og dagamunur sem gerður verður af því tilefni. Einnig var rætt um útilistaverkið við bílastæðið sem staðið hefur til af þessu tilefni en Elísabet greindi frá því að enn hefði ekki fengist styrkur til verkefnisins. Leikskólinn mun þó ekki láta deigan síga og eru börnin þegar farin að gera tákn fyrir gildin sem unnið er eftir.

Aðalskoðun leiksvæðis fór fram á árinu og komu fram nokkrar ábendingar um það sem betur má fara í öryggismálum en allar voru ábendingarnar metnar sem lágmarksáhætta. Umsjónarmaður garðsins á vegum Kópavogsbæjar mun fylgja ábendingum eftir og gera úrbætur þar sem við á. Einnig fór fram reglubundið eftirlit Heilbrigðiseftirlitsins á árinu og komu fram ábendingar um úrbætur í eldhúsi.    

Elísabet greindi frá nýrri stöðu sérgreinastjóra skapandi starfs, sem er tilraunaverkefni og var kynnt á foreldrafundinum. Sérgreinastjóranum er fyrst og fremst ætlað að vinna með elstu árgöngunum að listsköpun, s.s. teiknitúlkun sem er viðbót við þá listsköpun sem þegar fer fram á deildunum. Eftir áramót munu yngstu börnin heimsækja listaskálann með sínum kennurum.

Lítillega var rætt um samstarf Álfaheiðar og Álfhólsskóla sem Elísabet sagði að styktist sífellt ár frá ári.

Starfsmenn leikskólans munu halda í námsferð til Brighton í maí 2016, bæði til að skoða starf þarlendra leikskóla og ekki síður til að efla hópinn. Starfsmenn fá styrk til þessa frá sínum stéttarfélögum.

Að lokum lýstu fundarmenn ánægju með fyrirkomulag foreldrafundarins 13. október sl. en þegar hefðbundnum aðalfundarstöfum lauk, var foreldrum skipt í smærri hópa. Hóparnir dreifðust um allan skóla og fengu þeir stuttar en afar líflegar kynningar á starfi skólans.

Næsti fundur foreldraráðs er áætlaður miðvikudaginn 13. janúar 2016, kl. 17.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 18.00.

Fundur foreldraráðs 6. október 2015 - 6.10.2015

Fundinn sátu; Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Margrét Ludwig og Júlíus Þór Sigurjónsson. Halla Valgeirsdóttir boðaði forföll.

Elísabet kynnti starf vetrarins fyrir fundarmönnum og farið var yfir dagskrá foreldrafundarsins sem haldinn verður á þriðjudaginn kemur, 13. október nk. Einnig var kynnt endurmenntunaráætlun og verkefnið „Sjálfbærni og vísindi“ sem skólinn tók þátt í á síðasta starfsári.  Jafnframt greindi Elísabet frá mannabreytingum á síðustu mánuðum og fyrirkomulagi danskennslu á starfsárinu.

Að lokum var starfsáætlun Álfaheiðar fyrir starfsárið 2015-2016 samþykkt og staðfest með undirritun formanns, Kolbrúnar Önnu Björnsdóttur, sem nú lætur af embætti. Var henni þakkað gott starf í þágu leikskólans.

Fleira var ekki gert.

Fundur foreldraráðs 13. janúar 2015 - 13.1.2015

Fundinn sátu; Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Júlíus Þór Sigurjónsson, Margrét Ludwig og Halla Valgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Elísabet sagði fundarmönnum frá ferð fjögurra starfsmanna til Bretlands (London), sem var styrkt í gegnum Erasmus+ og voru tveir skólar heimsóttir. Hún sýndi jafnframt fjölmargar myndir frá heimsókninni. Báðir skólarnir starfa í anda Lífsmenntarstefnunnar (Living values). Annar skólinn er fyrir 4 - 11 ára börn. Þar stunda um 900 börn nám. Hinn skólinn er fyrir börn á aldrinum 4 - 7 ára og þar stunda um 300 börn nám.

Á heimasíðu skólans má finna nánari upplýsingar um Erasmus+ verkefni skólans: http://alfaheidi.kopavogur.is/um-skolann/erasmus/

Á fundinum var einnig rætt um uppsetningu listverks/a sem byggir á þeim gildum sem Álfaheiði vinnur eftir. Áhugi er á að setja upp listaverk bæði inni og úti. Rætt var um mögulega hugmyndasamkeppni meðal foreldra. Fyrsta skrefið verður þó hugmyndavinna meðal starfsmanna og elstu barnanna.

Fleira var ekki rætt.

Fundi slitið 18.15

Fundur foreldraráðs 6. nóvember 2014 - 6.11.2014

Fundinn sátu; Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Júlíus Þór Sigurjónsson, Margrét Ludwig og Halla Valgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta var fyrsti fundur nýkjörins foreldraráðs, en skipan ráðsins er óbreytt frá síðasta ári. Kolbrún Anna var kosin formaður og Halla ritari.

Leikskólinn fékk Erasmus+ styrk og fyrirhugaðar eru þrjár ferðir starfsmanna skólans:

- 19. – 23. nóvember munu fjórir starfsmenn fara til Bretlands að skoða tvo skóla.

- Í mars 2015 munu fjórir starfsmenn fara til Hollands.

- Í apríl 2015 munu fjórir starfsmenn fara til Svíþjóðar.

Von er á gestum í heimsókn frá Bretlandi. Upplýsingar um það verða birtar á heimasíðu leikskólans.

Verkfall starfsmanna í Starfsmannafélagi Kópavogs hefur verið boðað 10. nóvember ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Farið var yfir viðbragðsáætlun leikskólans ef til verkfalls kæmi og rætt  um hversu mikil áhrif það gæti haft á starfsemi skólans og þar með á fjölmargar fjölskyldur í bæjarfélaginu. Ákveðið að senda bæjaryfirvöldum ályktun þar sem hvatt er til þess að samið verði svo ekki þurfi að koma til verkfalls.

Fleira var ekki rætt.       

Fundur foreldraráðs 7. maí 2014 - 7.5.2014

Fundinn sátu; Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Margrét Ludwig, Júlíus Þór Sigurjónsson og Halla Valgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Elísabet sýndi fundarmönnum afar vandaða og fallega námsskrá leikskólans. Foreldrar munu fá hana senda, rafrænt, fljótlega.

Starfsmenn leikskólans eru að vinna að því að safna námsefni til að nota við kennslu samkvæmt námsskránni, t.d. í tengslum við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og málörvun.

Hver deild mun vinna námsáætlun út frá þeim námsþáttum sem skilgreindir eru í námsskránni.

Mikið var rætt um stöðu starfsmannamála leikskóla í Kópavogi. Elísabet sagði frá opnu bréfi sem 18 leikskólastjórar í Kópavogi hafa sent til sveitarstjórnarmanna þar sem vakin er athygli á þeim vanda sem leikskólar standa frammi fyrir varðandi starfsmannahald.

Í bréfinu er leitað  svara við þremur spurningum:

1)      Hvernig ætla frambjóðendur að laða að fleiri leikskólakennara til starfa í Kópavogi?

2)      Hvaða aðgerðir ætla frambjóðendur að fara í til að koma á stöðuleika í starfsmannahaldi?

3)      Hvað ætla frambjóðendur að gera fyrir þá sem nú starfa í leikskólum bæjarins og vinna oft undir miklu álagi?

Rætt var um að mikilvægt væri að foreldrar létu sér þetta mál varða þar sem fagmenntun starfsfólks er grunnurinn að gæðum leikskólastarfsins .

Fundur foreldraráðs 26. mars 2014 - 26.3.2014

Fundinn sátu: Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Margrét Ludwig og Halla Valgeirsdóttir sem ritaði fundargerð. Júlíus Þór Sigurjónsson var fjarverandi.

Elísabet bauð foreldraráði að taka þátt í fundi með Neil Hawkes á starfsdegi leikskólans þann 7. apríl næstkomandi. Erindi hans mun fjallar um að dýpka skilning okkar á því hvað það þýðir að vinna með gildi í skólastarfi (Deepening our understanding of what it means to be a Values-based School).
Hún fór jafnframt yfir dagskrá dagsins. Neil verður í Álfhólsskóla þriðjudaginn 8. apríl þar sem starfsfólk skólans mun hlýða á hann.

Undirbúningur fyrir flutninga milli deilda er hafinn.

Leikskólanum hefur borist erindi þar sem leitað er eftir fulltrúum úr röðum starfsmanna og foreldra til að taka þátt í fundi, á vegum FSL (Félags stjórnenda leikskóla), FL (Félags leikskólakennara) og Sambands íslenskra sveitarfélaga, um framtíð leikskólans í landinu. Um er að ræða sameiginlegan fund fyrir Reykjavík og Kragann. Áætlað er að fundurinn verði haldinn 9. apríl næstkomandi.

Hjördís Jónsdóttir sem starfað hefur við leikskólann frá upphafi hættir við sumarfrí vegna aldurs og Ingunn Guðmundsdóttir fer í barnsburðarleyfi. Búið er að ráða Sigríði Gunnarsdóttur leikskólakennara og Fjólu Þorvaldsdóttur leikskólasérkennara en þær koma til starfa í haust.

Á hverju starfsári býður Kópavogsbær starfsmönnum leikskóla upp á fyrirlestra og námskeið sem er liður í endur – og símenntun þeirra. Starfsmenn leikskólans eru duglegir að sækja sér endurmenntun og má nefna að þrír starfsmenn munu sækja málþing um jafnrétti á vegum RannUng 28. mars.  

Fundur foreldraráðs 25. febrúar 2013 - 25.2.2014

Fundinn sátu: Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Svanhildur Anja Ástþórsdóttir, Hólmfríður Einarsdóttir og Júlíus Þór Sigurjónsson.

Efni fundar:

1.      Maturinn í leikskólanum
Þann 25. febrúar sendi Elísabet leikskólastjóri tölvupóst til foreldra og forráðarmanna þar sem matur í leikskólanum var kynntur og minnt á að samkvæmt Lýðheilsustöð þurfa börn á leikskólaaldri að borða 6 litlar máltíðir á dag. Þannig megi ætla að börnin í Álfaheiði sem dvelja þar allan daginn fái 50 % af orkuþörf sinni í leikskólanum og 50% heima. Nokkrar umræður urðu um málið og kynnti Elísabet Handbók fyrir leikskólaeldhús sem Lýðheilsustöð gefur út. Við gerð áætlana og matseðla í leikskólanum er unnið eftir handbókinni.

Rætt var um fæðuóþol og ofnæmi meðal barna sem dvelja í leikskólanum. Upplýsingar um það að börn með ofnæmi dvelji í leikskólanum hanga uppi á deildum en rætt var um það að gott væri að minna á slíkt til dæmis í tölvupósti eins og gert var í erindinu frá Elísabetu um matinn í leikskólanum. Þetta er brýnt til að allir séu meðvitaðir um það að börn komi ekki með mat í leikskólann af neinu tagi. Tekið er tillit til barna með staðfest fæðuóþol við matargerð í leikskólanum. Elísabet kynnti upplýsingablað varðandi ofnæmi viðkomandi barns sem starfsfólk á deild hefur svo að allt sé ljóst og ekki þurfi að leita eftir upplýsingum ef barn fær ofnæmiskast (ofnæmispennar eru í leikskólanum).

Sú hugmynd lögð fram að ræða þann möguleika við Foreldrafélagið að það kæmi að fræðsluerindi um mat og næringu fyrir foreldra/forráðarmenn. Væri slíkt námskeið hugsað til þess að ræða almennt um næringarþörf barna, hvaða fæðutegundir/aukaefni ber að varast. Kanna á möguleikann á að fá næringarfræðing eða ráðgjafa sem gæti haldið námskeið og ræða við stjórn Foreldrafélags.

2.      Sjálfboðaliðastarf foreldra í aðlögun erlendra fjölskyldna
Fyrir nokkru kom foreldri sem dvalið hafði erlendis og á jafnframt sæti í foreldraráði leikskólans hugmynd til Elísabetar um að foreldrar í leikskólanum gætu aðstoðað foreldra af erlendu bergi sem eiga börn í leikskólanum. Er þetta ekki hugsuð sem ígildi félagsþjónustu heldur eigi verkefnið að tengja saman fólk í nærsamfélagi og að þeir sem það kjósa geti sótt aðstoð í daglega lífinu. Lögð var fram tillaga að bréfi sem mætti afhenda erlendum foreldrum þar sem verkefnið er kynnt. Ætlunin yrði að bréfið yrði tiltækt á íslensku, ensku og pólsku. Þegar undirbúningsvinnu verður lokið er áætlað að kynna verkefnið fyrir foreldrum leikskólans sem vonandi gætu hugsað sér að koma að þessu uppbyggilega verkefni.

Fundur foreldraráðs 18. febrúar 2014 - 18.2.2014

Fundinn sátu; Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Júlíus Þór Sigurjónsson, Margrét Ludwig og Halla Valgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Elísabet kynnti námsskrárvinnuna sem er komin vel á veg.

Elísabet kynnti  verkefnið Sólblómaleikskólar sem er á vegum SOS Barnaþorpa. Sólblómaverkefnið gengur út á að þeir leikskólar sem eru styrktarforeldrar, styrkja þorp eða styrkja SOS á annan hátt verða svokallaðir Sólblómaleikskólar.  Í Álfaheiði hefur Lucas styrktarbarn skólans verið endalaus uppspretta námstækifæra. SOS vill safna saman slíkum hugmyndum fyrir aðra leikskóla sem vilja feta í fótspor Álfaheiðar. Elísabet sýndi drög að bæklingi sem verið er að vinna að um Lucasarverkefnið sem SOS getur nýtt til kynningar. Bæklingurinn kemur væntanlega út í mars eða apríl.

Samvinna við Álfhólsskóla er að aukast og verða markvissari. Dr.Neil Hawkes, stofnandi alþjóðlegu Values Education Trust samtakanna verður á landinu í apríl og mun heimsækja Álfhólsskóla og kynna hvernig hægt er að vinna markvisst  með gildi í skólastarfi.

Fyrirhuguð er rannsókn meðal leikskólabarna undir yfirskriftinni Heilsuhraust leikskólabörn. Athugun á áhrifum umhverfisþátta á líkamsþyngd og líðan. Rannsóknin nær til 3000 leikskólabarna fædd árin 2008 og 2009.

Rætt var um starfsmannamál á leikskólum í Kópavogi. Leikskólastjórar hafa áhyggjur af þróun mála og skorti á fagmenntuðu starfsfólki á leikskólum í Kópavogi.

Rætt var um skipulagsdaga, en stefna Kópavogs er að þeir verði sameiginlegir í grunn- og leikskólum bæjarins. Ekki hefur náðst samkomulag um hvaða dagar það verða fyrir næsta skólaár eftir að gerðar voru breytingar á fyrri ákvörðunum.

Kópavogsbær hefur leitað til leikskólans um að taka á móti atvinnuleitendum í starfsþjálfun í 1-3 mánuði í senn, tvo til fimm daga í viku. Leikskólinn hefur tekið vel í þessa beiðni.

Rætt um hvort leikskólinn ætti að koma sér upp Facebook síðu en fundarmenn voru sammála um að þær leiðir sem notaðar eru nú þegar til að miðla upplýsingum séu nægjanlegar, þ.e. heimasíða, tölvupóstur frá leikskólastjóra og starfsmönnum og upplýsingar á töflu hjá hverri deild.

Fundur foreldraráðs 5. nóvember 2013 - 5.11.2013

Fundinn sátu; Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Júlíus Þór Sigurjónsson, Margrét Ludwig og Halla Valgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta var fyrsti fundur nýkjörins foreldraráðs, Halla og Margrét komu nýjar inn í ráðið. Kolbrún Anna var kosin formaður og Halla ritari.

Næstu fundir voru ákveðnir: Áætlað er að annar fundur verði haldinn miðvikudaginn 29. janúar, kl. 17.00, þriðji fundur verði haldinn miðvikudaginn 26. mars, kl. 17.00 og fjórði fundur ráðsins verði haldinn miðvikudaginn 7. maí, kl. 17.00.

Farið var yfir störf foreldraráðs síðasta vetrar og Elísabet kynnti ný verkefni sem eru farin af stað hjá skólanum, þ.e. vinafjölskyldur og fatasöfnun til styrktar Lucas (styrktarbarni skólans). Elísabet fór jafnframt yfir hlutverk foreldraráðs.

Rætt var um starfsdaga, Elísabet mun senda erindi til foreldraráðs og foreldrafélags um óskum tilfærslu á starfsdegi, þ.e. að hafa starfsdag í apríl í stað mars. Dr.Neil Hawkes stofnandi alþjóðlegu Values Education Trust samtakana verður á landinu í apríl og leikskólinn hefur hug á að halda starfsdag 8. apríl þar sem fjallað verður um gildiskennslu í skólastarfi.

Rætt var um mikið myrkur á bílastæði og nauðsyn þess að fá betri lýsingu þar.

Elísabet hefur sent Kópavogsbæ erindi þess efnis að sett verði upp vegrið fyrir ofan bílastæði leikskólans. Tilefnið er óhapp sem varð í sumar þegar bíll rann niður á bílastæðið. Mikil mildi þykir að enginn var á ferli á þeim tíma sem þetta gerðist. Elísabet ætlar að kanna hvar erindið er statt í kerfinu og ákveðið var að foreldraráð muni fylga erindinu eftir ef ekkert hefur þokast.

Elísabet kynnt samstarf við Álfhólsskóla og starfsáætlun fyrir samstarfið.

Fundur foreldraráðs 24. október 2012 - 24.10.2012

Fundinn sátu: Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Svanhidur Anja Ástþórsdóttir, Júlíus Þór Sigurjónsson og Hólmfriður Einarsdóttir.

Efni fundar:

1. Fundartímar ráðsins á komandi vetri ræddir, en halda skal tvo fundi á haustönn 2012 og svo tvo á vorönn 2013. Næsti fundur áætlaður 3. og 10. desember nk., næstu þar á eftir í febrúar og apríl 2013. Samþykkt með fyrirvara um breytingar auk þess sem fundarmenn voru að kanna fundartíma sem helst kæmi til greina.

2. Rætt var um bréf frá Umboðsmanni barna um aðbúnað og öryggismál í leik- og grunnskólum g sent var til leikskólastjóra, foreldraráðs og foreldrafélags leikskólans. Þættirnir sem bréfið tekur á eru:

1) Hávaði í skólum: Um efnið sköpuðust nokkrar umræður og fór Elísabet yfir atriði sem unnið hafði verið að í leikskólanum til að tryggja heilbrigt hljóðumhverfi barnanna og starfsfólksins.

2) Öryggi á skólalóðum og leiksvæði barna: Elísabet svaraði fyrirspurnum fundarmanna um eftirlit og viðhald á skólalóð auk þess sem ræddar voru breytingar sem gerðar hafa verið á skólalóðinni. 

3) Slysavarnir og skyndihjálp: Rætt um nauðsyn þess að starfsfólk sé þjálfað í að bregðast við ef slys eða óhöpp verða í leikskólaunum. Elísabet sagði frá því að Herdís Storgaard hefði haldið námskeið fyrir starfsfólk á síðasta námsvetri þar sem fjallað var um slys á börnum, hvernig á að bregðast við og hvernig hægt er að koma í veg fyrir þau. Fundarmenn bentu á nauðsyn þess að foreldrar/forráðamenn fái einnig þjálfun í skyndihjálp og í því sambandi fjallað um skyndihjálparnámskeið sem foreldrafélagið hélt fyrir foreldra í leikskólanum og voru fundarmenn sammála um að koma þeim skilaboðum til foreldrafélagsins að sniðugt gæti verið að halda slíkt námskeið t.d. á tveggja ára fresti.

4) Brunavarnir: Elísabet kynnti fundarmönnum hvernig staðið er að brunaæfingum og almennum brunavörnum í leikskólanum. Einnig sagði hún frá heimsókn slökkviliðsins í vikunni á undan til elstu barna leikskólans. Í því sambandi benti Elísabet á að ábendingar hefðu komið fram hjá eftirlitsaðilum um að æskilegt væri að bæta við tveimur brunabjöllum í húsnæði leikskólans. Einnig hefði komið athugasemd varðandi eldvarnarhólf sem þó er erfitt að fylgja eftir vegna þess að húsnæðið gerir endurbætur erfiðar. Allur annar viðbúnaður leikskólans er mjög góður. 

Fundur foreldraráðs 30. ágúst 2012 - 30.8.2012

Efni fundar:
Skóladagatal Álfaheiðar yfirfarið og samþykkt
Skýrslu um Námferð leikskólans til Kanada kynnt
Rætt um starfsáætlun leikskólans sem send verður foreldraráði til umsagnar.

Mætt: Anna Kolbrún Björnsdóttir, Ingibjörg S. Sigurðardóttir og Elísabet Eyjólfsdóttir

Fundur foreldraráðs 11. júní 2012 - 11.6.2012

Rætt um niðurstöður úr viðhorfskönnun foreldra vegna nýrrar námskrár

50 foreldrar svöruðu könnuninni sem er ca. 68 % á miða við að foreldrar svari einu sinni fyrir systkini.

Spurningarnar voru :
Hefur þú kynnt þér núverandi námskrá Álfaheiðar ?
50 %  af þeim sem svöruðu höfðu lesið núverandi námskrá sem er á heimasíðunni en 50 % ekki

Foreldraráðið ræddi hvort hægt væri að hafa námskránna í einfaldari uppsetningu t.d. sjónrænu formi með stuttum setningum, síðan lesa meira. Elísabet kynnti hugmyndir sínar varðandi það. 
Einnig mætti námskráin liggja frammi á deildum. 
Rætt var um birtingu mynda á heimasíðunni og samþykki foreldra.

Hvaða gildi, anda, viðhorf eða hugsjónir vilt þú að einkennir starfið í  Álfaheiði í framtíðinni ?
Almennt voru foreldrar mjög ánægðir með starfið í leikskólanum og sérstaklega ánægðir með námsefnið Lífsmennt þ.e. vinnuna með gildin og jákvæð samskipti.

Hvernig leikskólastarf vilt þú sjá þróast í leikskólanum Álfaheiði ?
Almennt voru foreldrar ánægðir  með hvernig starfið hefur þróast t.d. sjálfstæði barna virt, jóga, hreyfing í þróttarhúsinu í Digranesi. Margar góðar ábendingar komu fram m.a. meiri hreyfing, tónlist  útivera,ímyndarafl barna virt og útikennslan þróist áfram. 

Foreldraráð var mjög ánægt með samvinnu leikskólan við Álfhólsskólasen  4 og 5 ára börn leikskólans hafa farið í hreyfingu í  íþróttarhúsið í Digranesi  og  við HK sem býður elstu börnum upp á 4 -5 vikna fótboltanámskeið í sumar. Fram kom tillaga að vera með íþróttadag með þrautabrautum og einnig hjóladag með aðkomu foreldra. Bílastæði leikskólans væri lokað fyrir bíla á meðan.

Hvernig vilt þú að foreldrasamvinnunni sé háttað ?
Flestir foreldrar voru mjög sáttir við hana eins og hún er en komu með góðar ábendingar. Nokkrir foreldrar vilja meiri aðkomu að leikskólanum.

Foreldraráðið kom með tillögu um að koma á fót sjálfboðaliðastörfum fyrir foreldra sem gætu lífgað starfið með ýmsu móti  t.d. hafa íþróttadag, tónlist, sögur, og annað sem foreldrar myndu vilja deila með börnunum.

Foreldraráðið ræddi um að gott væri að koma upp vinarfjölskyldum meðal  foreldra en í breyttu samfélagi þar sem fjölmenning ræður ríkjum væri gott fyrir marga  foreldra að fá tengilið og bindast vináttuböndum við foreldra með börn á deild barnsins síns.

Mætti: Júlíus þór Sigurjónsson, Kolbrún Anna Björnsdóttir  og Elísabet Eyjólfsdóttir

Fundur foreldraráðs 6. október 2011 - 6.10.2011

Rætt var um starfsáætlun leikskólans Álfaheiðar. Engar athugasemdir voru gerðar á skýrslunni en tillaga kom um að tímasetja betur þau markmið og áætlanir sem leikskólinn ætlar sér á komandi vetri. Rætt voru einstök atriði og fjölgun sérkennara og þroskaþjálfa í leikskólanum. Ánægja var með starfsmannahald og stöðugleika sem þar ríkir.

Einnig var rætt um þau þróunarverkefni sem hafa verið á leikskólanum sl 2ár, það var  Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og Einingarkubbarnir. Þróunarstarfinu lauk formlega 31. ágúst sl. en vinna með Barnasáttmálann heldur áfram og gefur okkur endalausa möguleika. Verkefnastjóri var Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir. 

Skólaárinu lauk einnig með verkefninu Einingakubbar fyrir öll börn leikskólans. Einingakubbarnir eru opinn efniviður og hafa þeir stærðfræðilega uppbyggingu. Verkefnastjóri var Hrönn Valgeirsdóttir.

Farið var létt yfir Umhverfisstefnu leikskólanna í Kópavogi. Leikskólinn Álfaheiði stendur vel að vígi þar og hefur flaggar Grænfánanum frá 2008.
Rætt var um að foreldraráð myndi virkja betur samstarf við foreldrafélagið. Hugmynd kom upp að einn fulltrúi foreldrafélagsins myndi funda með okkur næst og verður næsti fundur í nóvember.

Samþykki var gert á að sameina skipulagsdaga leikskólakennara á næsta ári svo starfsmenn komist í kynnisheimsókn til Kanada. Skipulagsdagarnir verða frá 18.apríl – 22. apríl 2012. Verður foreldrum kynnt það tímanlega svo hægt sé að gera ráðstafanir fyrir börnin.


Fundinn sátu Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Ingibjörg S. Sigurðardóttir formaður foreldraráðs, Elísabet Stephensen ritari foreldraráðs og Guðrún Arnalds, það vantaði Sólveigu Maríu Kjartansdóttur.

Fundur foreldraráðs 10. júní 2011 - 10.6.2011

Farið var yfir úttektarskýrslu sem gerð var á leikskólanum Álfaheiði 2010, sem unnin var af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Kom þar fram að leikskólinn uppfyllir kröfur aðalnámskrár um námssvið og námsþætti. Úttektin leiddi í ljós að stefna leikskólans með námsefnið Lífsmennt og umhverfismennt er skýr og hefur skilað margvíslegum ávinningi.

Nokkrar ábendingar komu fram og var brugðist strax við nokkrum þeirra en aðrar verða unnar á næsta skólaári m.a. að uppfæra skólanámskrá leikskólans og aðlaga handbækur og leiðbeiningar Kópavogsbæjar betur að starfsemi leikskólans.


Fundinn sátu: Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Ingibjörg S. Sigurðardóttir formaður foreldraráðs, Elísabet Stephensen ritari foreldraráðs og Guðrún Arnalds, það vantaði Sólveigu Maríu Kjartansdóttur.

Fundur foreldraráðs 21. janúar 2011 - 21.1.2011

Farið var yfir verklagsreglur úr skýrslu frá Heimili og skóla „Handbók foreldraráða í leikskólum“. Við fórum yfir hlutverk foreldrtaráðsins  út frá skýrslunni og settum okkur reglur um ákveðinn fjölda funda yfir vetrartímabilið. Ákveðið var að funda tvisvar yfir önn, s.s. tvisvar á hausti og tvisvar á vorönn. Ráðinu þótti of mikið að funda einu sinni í mánuði líkt og gert er ráð fyrir í skýrslunni.


Fundinn sátu: Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri, Ingibjörg S. Sigurðardóttir formaður foreldraráðs, Elísabet Stephensen ritari foreldraráðs og Sólveig María Kjartansdóttir, það vantaði Guðrúnu Arnalds.Þetta vefsvæði byggir á Eplica